Gleðin við völd sem fyrr í Hvanndal – MYNDIR
Grallarnir í Hvanndalsbræðrum fögnuðu 20 ára afmæli hljómsveitarinnar með tvennum tónleikum í Hofi á laugardaginn. Með þeim kom fram grínistinn Sóli Hólm og kórinn Í fínu formi, kór eldri borgara á Akureyri. Sá góði kór hafði í nógu að snúast um helgina því hann söng einnig á tvennum tónleikum í Hofi daginn eftir, í tilefni afmælis Félags eldri borgara. Nánar er fjallað um þá tónaveislu annars staðar á Akureyri.net.
Hvanndalsbræður eru Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson, Sumarliði Helgason, Valur Freyr Halldórsson, Arnar Tryggvason, Pétur Steinn Hallgrímsson og Valmar Väljaots, auk Gunnars Sigurbjörnssonar hljóðmeistara.
„Þetta var virkilega vel heppnað. Það var yndislegt að hafa kór eldri borgara með okkur og Sóli fór á kostum,“ sagði Sumarliði við Akureyri.net. „Það verður erfitt að toppa þetta en við erum þó farnir að skipulegga uppsetningu á rómantískri listdanssýningu sem heitir Kranavatnið!“ sagði Hvanndalsbróðirinn, jafn grafalvarlegur í bragði og þeim er lagið ...
Linda Ólafsdóttir var með myndavélina á lofti í Hofi á laugardaginn og býður hér til myndaveislu.