Gleðin ávallt við völd á jólaballi Skógarlundar
Gleðin var við völd eins og jafnan áður þegar jólaball Skógarlundar, miðstöðvar virkni og hæfingar, var haldið í Giljaskóla um liðna helgi.
Sami mannskapur og venjulega lék og söng; Snorri Guðvarðsson, Ingólfur Jóhannsson, Finnur Finnsson og Valdimar Jónsson léku við hvern sinn fingur á hljóðfærin og Ragnheiður Júlíusdóttir söng. Hópurinn notast við ýmis heiti þegar hann kemur saman, að þessu sinni hét hljómsveitin Vinir Röggu enda söngvarinn Ragga forstöðukona í Skógarlundi, þar sem boðið er upp á atvinnu- og hæfingartengda þjónustu fyrir einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir.
Þorgeir Baldursson mætti á jólaballið með myndavélina og býður hér upp á nokkur sýnishorn af gleðinni.
Ragnheiður Júlíusdóttir forstöðukona í Skógarlundi og söngkona í Vinum Röggu og Jón Óskar Ísleifsson, ljósmyndari með meiru, í góðum gír á jólaballinu.