Geta gert við nánast allt sem tengist tjöldum
Útilegutíminn stendur nú sem hæst og þá er algengt að rennilásar bili, fortjöld rifni eða stangir brotni. Starfsfólk Saumastofunnar Seglsins á Akureyri er vant því að leysa úr alls kyns vanda og hefur fyrirtækið oftar en ekki komið tjaldgestum til bjargar á ögurstundu.
„Fyrir tveimur árum síðan þegar það var fótboltamót í bænum hringdi hingað maður sem var á Hömrum með fjölskylduna. Rennilásinn var ónýtur hjá þeim, allt á floti og hann gat ekki tekið tjaldið niður því það var svo blautt. Þá fór ég bara með græjur upp á tjaldsvæði og skipti um rennilás á staðnum. Þetta er ekki endilega eitthvað sem við höfum verið að bjóða upp á, en í svona tilfellum finnur maður bara svo til með fólki og vill ekki láta fólk vera rennandi blautt með börn og geta ekki þurrkað af sér,“ segir Anna María Sigurgeirsdóttir, saumakona hjá Seglinu við Akureyri.net.
Rennilásar bila oft
Undir þetta tekur forstjórinn, Helga Sigríður Helgadóttir, og bætir við að þær stöllur reyni að hlaupa undir bagga með fólki ef þær geta, sérstaklega ef um utanbæjarfólk sé að ræða sem lendir í óhöppum. „Þá vinnum við bara lengri daga,“ segir Helga og bætir við að þær geti gert við flest sem kemur inn á borð þeirra sem hefur með tjöld að gera. „Það eru yfirleitt rennilásarnir eða kílinn á fortjaldinu sem fólk þarf að fá aðstoð við. Ef rennilásinn fer þá heldur fólk oft að það verði að skipta út öllum lásnum. Oft er hins vegar nóg að skipta bara um sleðann en við erum með meira en 50 tegundir af sleðum á lager hjá okkur,“ segir Anna Margrét og Helga Sigríður bætir við að í miklu roki rifni tjöld oft út frá stöngunum, en það sé yfirleitt hægt að laga slíkt.
Viðgerð á tjaldi. Stöllurnar í Seglinu geta gert við nánast allt er viðkemur tjöldum af ýmsum toga.
Gömlu A-tjöldin í tísku
Helga Sigríður og Anna Margrét segja báðar að það sé ánægjulegt að fólk vilji frekar gera við hlutina en að henda þeim og kaupa nýtt. „Fólk er t.d. mikið að koma hingað með gömlu A-tjöldin og spyrja hvort ekki sé hægt að laga þau. Mér finnst rosalega skemmtilegt að þessi tjöld séu að komast í tísku. Ég held að fólk sé bara farið að þrá það að fara í gamaldags útilegu, að komast út í náttúruna án rafmagns. Ekki með hótelið með sér, eins og það er nú samt dásamlegt,“ segir Anna Margrét.
Fjölbreytt verkefni
Fyrir utan að gera við tjöld þá eru verkefnin sem koma inn á borð saumastofunnar afar fjölbreytt. Þær sauma t.d. grasmottur, sóltjöld og vindhlífar eftir málum. Þá gera þær við og sauma úr leðri, pvc efni og allskonar öðrum efnum. Til dæmis hafa þær saumað utan um lok á heitum pottum, gert við hnakka og mótorhjólasæti, lagað sófa, saumað hlífar yfir tölvuskjái, gert við skó og lagað segl á skútum, svo fátt eitt sé nefnt. Að auki sauma þær út merkingar í fatnað, töskur og aðra hluti. Og það er meira en nóg að gera allan ársins hring, þó svo sumarið sé vissulega háannatíminn.
Saumastofan Seglið hefur þó aldrei auglýst þjónustu sína. „Nei, þetta hefur bara spurst út,“ segir Helga sem stofnaði fyrirtækið fyrir 14 árum eða árið 2010. Þá var hún tiltölulega nýlega flutt til Akureyrar en fékk ekki vinnu í bænum eftir að hafa unnið í bókhaldi í mörg ár. „Ég fékk enga vinnu og dreif mig því í nám, fór á listnámsbrautina í Verkmenntaskólanum. Þegar ég lauk námi, 48 ára gömul, ætlaði ég að búa mér til eitthvað lítið hobbý. En þetta sem átti að verða lítið hobbý, ég hef nú lítið getað stundað það, því verkefnin tóku bara yfir.“
Saumastofan Seglið er 14 ára gamalt fyrirtæki á Akureyri, til húsa við Njarðarnes.