Fara í efni
Mannlíf

Gervigreind lækkaði matarreikninginn

Arnar Gauti Finnson notar gervigreindina mikið í sínu starfi en hefur líka nýtt hana til að létta undir á heimilinu varðandi skipulag í kringum matarinnkaup og matseld.

Arnar Gauti Finnsson, skrifstofustjóri hjá KA, hefur fundið skapandi og hagkvæma leið til að bæta matarmenningu heimilisins á nýju ári. Með hjálp gervigreindar er hann ekki aðeins farinn að elda meira spennandi mat heldur hefur honum tekist að lækka matarreikninginn heilmikið.

Arnar Gauti og eiginkona hans, Íris Rún Gunnarsdóttir, reka stórt heimili. Dagsdaglega eru sex manns á heimilinu en það getur farið upp í níu manns um helgar. Eftir áramótin síðustu ákvað Arnar Gauti að taka ýmislegt fastari tökum á heimilinu og fór m.a. að nýta gervigreindina til að aðstoða við matarinnkaupin. Einu sinni í viku fór hann að biðja hana að setja saman vikumatseðla fyrir heimilið. Markmiðið var einfalt: að minnka matarsóun á heimilinu. Útkoman reyndist þó einnig skila sér í fjölbreyttari mat, minna stressi í eldhúsinu og talsverðum sparnaði í matarinnkaupunum.

Matarreikningurinn lækkaði

„Þegar best hefur látið höfum við farið niður í 15–20 þúsund krónur á viku í matarinnkaupum,“ segir Arnar en bætir þó við að samanburður við önnur heimili sé kannski ekki sanngjarn þar sem þau fái t.d. alltaf fisk frá tengdapabba. „Stóra breytingin var að fara aðeins einu sinni í búð í viku og versla inn og fara eftir vikumatseðli við innkaupin – það skipti öllu.“ Áður segir Arnar að kvöldmaturinn hafi oftast verið ákveðinn samdægurs og of margar búðarferðir leiddu oft til þess að einhverjum óþarfa var kippt með heim í leiðinni.

Í staðinn fyrir að vera stöðugt að eyða tíma í að hugsa hvað eigi að hafa í matinn, biður Arnar gervigreindina um hugmyndir einu sinni í viku út frá grófum óskum, t.d. fiskur á mánudögum, kjöt á þriðjudögum og eitthvað létt um helgar. Þá er hægt að gefa gervigreindinni upplýsingar um hvað er nú þegar til í ísskápnum og biðja um tillögur út frá því hráefni. Arnar segir að þetta sé í rauninni mjög skemmtilegt ferli en þau hjónin setjast yfirleitt niður á sunnudagskvöldum ásamt yngsta syninum og taka samtal við gervigreindina um vikuna framundan. Gervigreindin stingur þá upp á matseðlum sem þau geta auðveldlega lagað að sínum óskum, t.d. óskað eftir meira framandi áhrifum í matreiðsluna og þá fylgja líka uppskriftir með. Þannig fæðast bæði hefðbundnir og nýstárlegir réttir og allar uppskriftirnar hafa verið bragðgóðar að sögn Arnars.

Dæmi um vikumatseðil frá ChatGPT

  • Mánudagur – Ofnbakaður lax með sætri kartöflu og spínati
  • Þriðjudagur – Pasta með kirsuberjatómötum og mozzarella
  • Miðvikudagur – Ofnbakað kúrbítspasta með feta og sólþurrkuðum tómötum
  • Fimmtudagur – Kjúklingur Caprese í ofni
  • Föstudagur – Pítsa úr tortillubotni
  • Laugardagur – Sætar kartöflur með grilluðum osti og avókadó
  • Sunnudagur – Ofnbakaður þorskur með kartöflum og smjör-sítrónusósu


Það er oft mannmargt við matarborðið hjá þeim Írisi og Arnari. Hér eru börn og tengdabörn við borðið.

Hugmyndaleysi í eldhúsinu

Fjölskyldan leggur líka áherslu á að elda mat sem auðvelt er að nýta daginn eftir, sem stuðlar að minni matarsóun. „Það er bannað að henda mat hjá okkur,“ segir hann og bætir við að skammtastærðir og skipulag hafi líka hjálpað til. Það er t.d. alveg bannað að setja olíu út á salatið, nema þegar það er komið á diskinn, því annars verður það slepjulegt og ekki hægt að borða það daginn eftir. „Þá sleppi ég oft ákveðnum hráefnum í uppskriftum sem þarf aðeins að nota hnífsodd af, yfirleitt skiptir það ekki öllu þegar á heildina er litið, nema þá sit ég ekki uppi með opnar umbúðir af einhverju sem ég veit ekkert hvað á svo að gera við restina af. Eða ég bið gervigreindina hreinlega um aðra uppskrift sem ekki inniheldur t.d. ferskar kryddjurtir eða eitthvað annað hráefni sem líklegt er að fari til spillis.“

Þó að skipulagið hafi dottið aðeins niður síðustu vikurnar vegna ferðalaga og annarra anna, er heimilisfólkið nú að kalla eftir því að gervigreindarmatseðlarnir verði virkjaðir aftur, enda hefur skipulagið virkað mjög vel. Arnar segist nýta gervigreindina mikið í sínu starfi og fannst eðlilegt að prófa hana líka í eldhúsinu. „Þetta er bara nýtt verkfæri sem auðveldar svo margt í lífinu– og gerir það meira að segja aðeins skemmtilegra. Maður er oft svo hugmyndasnauður þegar kemur að matseldinni og það er gaman að fá innblástur að einhverju nýju og það á svona auðveldan hátt.“

 

Kínóa salat - uppskrift frá ChatGPT 
Hér er einföld og ljúffeng uppskrift að kínóa salati sem hentar vel sem létt máltíð eða meðlæti:

Innihald:

  • 1 bolli kínóa (þvegið og soðið skv. leiðbeiningum)
  • 1/2 agúrka (skorin í teninga)
  • 1 rauð paprika (smátt skorin)
  • 1 handfylli kirsuberjatómata (skornir í helminga)
  • 1 lítil rauðlaukur (smátt skorinn)
  • 1 handfylli fersk steinselja eða kóríander (smátt saxað)
  • 1 bolli niðursoðnar kjúklingabaunir (skolaðar og látnar renna af)
  • 1/4 bolli fetaostur (valfrjálst)

Fyrir dressingu:

  • 3 msk ólífuolía
  • 1 msk sítrónusafi (eða lime safi)
  • 1 hvítlauksrif (pressað eða smátt saxað)
  • 1 tsk hunang eða hlynsíróp
  • 1 tsk sinnep (valfrjálst)
  • Salt og pipar eftir smekk

Leiðbeiningar:

1. Undirbúningur kínóa: Eldaðu kínóa samkvæmt leiðbeiningum, láttu kólna í nokkrar
mínútur.

2. Skerðu grænmetið: Á meðan kínóa kólnar, skerðu grænmetið í litla bita.

3. Blandaðu dressinguna: Hrærið saman ólífuolíu, sítrónusafa, hvítlauk, hunangi, sinnepi (ef notað) og salti og pipar í skál.

4. Settu allt saman: Blandaðu kínóa, grænmeti, kjúklingabaunum og ferskum kryddjurtum í stórri skál. Helltu dressingunni yfir og blandaðu vel saman.

5. Bættu við fetaosti: Ef þú vilt, skreyttu salatið með fetaosti.

Berðu salatið fram kalt eða við stofuhita. Salatið geymist vel í kæli í 2-3 daga.