Gefjun, Iðunn eða Glerá mathöll?
Nafnasamkeppni stendur nú yfir um nafn á nýja mathöll sem opnuð verður á Glerártorgi með haustinu. Margir hafa skilað inn tillögum að nafni á staðinn og virðist tenging við sögu svæðisins ofarlega í huga fólks.
„Já, það eru greinilega margir spenntir fyrir opnun mathallararinnar og með sterkar skoðanir á því hvað mathöllin eigi að heita. Við höfum nú þegar fengið margar góðar tillögur svo það er nokkuð ljóst að mathöllin verður ekki nafnlaus,” segir Kristín Anna Kristjánsdóttir hjá markaðsdeild Glerártorgs. „Þá er gaman að sjá hversu margar hugmyndanna hafa vísan í fortíðina, það er greinilegt að margir vilja halda sögu svæðisins á lofti.”
- Smellið hér til að sjá fyrri umfjöllun Akureyri.net um mathöllina
Dæmi um hugmyndir sem nú þegar hafa verið viðraðar á Facebook eru nöfn á borð við Gefjun mathöll, Hekla mathöll og Iðunn mathöll. Öll þessi heiti vísa í starfsemi verksmiðjanna sem voru áður á svæðinu, en þess má geta að nú þegar er veitingastaður á Glerártorgi, Verksmiðjan, sem ber skýra tilvísun í fyrrum starfsemi á lóð Glerártorgs.
Þá hafa nöfn eins og Mathöll Norðurlands, Glerá mathöll og Súlur mathöll einnig fengið sín atkvæði svo fáein dæmi séu nefnd, en um 430 manns hafa nú þegar skilað inn tillögum. Enn er þó hægt að bæta við nöfnum í pottinn en nafnasamkeppnin stendur til 1. ágúst.
Hægt er að skila inn tillögum á Facebooksíðu Glerártorgs eða á netfangið glerartorg@glerartorg.is Verðlaun verða veitt fyrir þá tillögu sem verður fyrir valinu.