Gamli rauður kveður árið með „söng“
Aðstæður til skíðagöngu eru frábærar í Kjarnaskógi í dag eins og oft áður, að sögn Ingólfs Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Eyfirðinga. Þeir Gamli rauður, hinn aldni snjótroðari félagsins, héldu af stað í morgun og tróðu göngu- og skíðabrautir í sameiningu. Þeir gerðu slíkt hið sama á nýársdag, sem var síðasta vakt þess rauða á fyrsta degi árs – því í ár fær Skógræktarfélagið nýjan troðara, sem safnað hefur verið fyrir síðustu mánuði. Af því tilefni sungu þeir Ingólfur og Gamli rauður fyrir vini félagsins á Facebook.
„Við Gamli rauður höfum verið að æfa okkur að syngja svolítið saman og ætlum að syngja fyrir okkur áramótakveðju,“ segir Ingólfur þar, sá gamli gefur honum tóninn C og svo syngja báðir af innlifun ...
Ingólfur nefnir í myndbandinu hve veðrið í skóginum sé gott, þótt blási utan hans. Það er mjög algengt, segir hann við Akureyri.net. „Það var gaman að upplifa um helgina, þegar aðstæður voru almennt ekki sem bestar til útivistar vegna veðurs, hvað 75 ára gamall skógur býður upp á allt aðra veðurveröld. Ég hugsaði að minnsta kosti hlýlega til frumherjanna sem tóku upp á því að planta skógi,“ segir Ingólfur.
Smellið hér til að hlýða á þá Ingólf og Gamla rauð syngja saman.