Mannlíf
Gamla myndin: veistu hvar þetta er?
17.01.2025 kl. 06:00
Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 219. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, þær vekja jafnan mikil viðbrögð og upplýsingar hafa borist um langflestar.
Veistu hvar þessi fallega mynd er tekin og jafnvel hverjar konurnar eru? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net
- Myndin hér að neðan birtist fyrir viku. Þetta er á Skagaströnd. Myndin er tekin nálægt vestari enda Spákonufellshöfða nálægt svokölluðu Hólsnefi, skv. pósti frá Lárusi Ægi Guðmundssyni á Skagaströnd. Lengst til vinstri er lýsis- eða olíutankur fyrir síldarverksmiðju SR sem reist var á Skagaströnd á árunum 1943 – 1945, segir hann og á vef Héðins í Reykjavík kemur fram að um olíutank sé að ræða. Starfsmenn fyrirtækisins hafi lokið við að smíða tankinn árið 1947. Lárus Ægir segir: Byggingarnar neðst á myndinni eru nú allar horfnar en stóðu þar sem síðar var byggt frystihús en þar var jafnframt lítil bryggja sem byggð var ca. upp úr 1930. Sum íbúðarhúsanna sem sjást á myndinni eru enn á sínum stað en önnur eru horfin.
Fleiri gamlar myndir frá Minjasafninu á Akureyri er hægt að skoða HÉR