Mannlíf
Gamla myndin: veistu hvar þetta er?
06.12.2024 kl. 06:00
Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 213. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, flestar hafa vakið mikil viðbrögð og upplýsingar borist um langflestar þeirra.
Hefurðu hugmynd um hvar þessi mynd er tekin eða hvaða menn þetta eru? Mennirnir sjást betur hér að neðan. Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um staðinn eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net
- Myndin hér að neðan birtist fyrir viku. Hún er tekin í Hrísey og húsið er Nes, sem nú er Austurvegur 24. Þorsteinn Þorsteinsson Hríseyingur sendi Akureyri.net línu og telur að konan til vinstri á myndinni sé Hanna Kristín Baldvinsdóttir sem bjó í Njálshúsi, en það hús var næst austan við Nes. Hann sér ekki hver hin konan er.
- Í Nesi bjuggu á sínum tíma hjónin Þorsteinn Vilhjálmsson og Margrét Baldvinsdóttir og þar ólust upp synir þeirra, tvíburarnir Vilhelm og Baldvin Þorsteinssynir, báðir skipstjórar og Vilhelm síðar forstjóri Útgerðarfélags Akureyringa. Synir þeirra, tvíburarnir Vilhelm og Baldvin Þorsteinssynir ólust upp í Nesi. Þeir eru feður frændanna Kristjáns, Þorsteins og Þorsteins Más, stofnenda Samherja.
- Akureyri.net barst önnur ábending um að konan vinstra megin gæti verið Margrét Baldvinsdóttir en Þorsteinn Þorsteinsson er á öðru máli eins og fram kemur að ofan. Spennandi verður hvort frekari upplýsingar berist.
Fleiri gamlar myndir frá Minjasafninu á Akureyri er hægt að skoða HÉR