Mannlíf
Gamla myndin: veistu hvar þetta er?
22.11.2024 kl. 06:00
Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 211. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, flestar hafa vakið mikil viðbrögð og upplýsingar borist um langflestar myndirnar.
Hefurðu hugmynd um hvar þessi mynd er tekin? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um staðinn eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net
- Myndin fallega hér fyrir neðan birtist síðasta föstudag og ekki leið á löngu þar til upplýsingar bárust um stúlkuna. Hún heitir Kristbjörg Böðvarsdóttir, kölluð Krilla, fædd 1942 og býr á Reyðarfirði. Kristbjörg stendur þarna fyrir utan æskuheimili sitt, Valhöll á Eskifirði sem nú er Hólavegur 3. Einu sinni var þetta hús spítalinn á staðnum og móðir Kristbjargar oft nefnd Helga á spítalanum. Gaman er að segja frá því að systir Helgu, móður Kristbjargar, var Björg Finnbogadóttir, jafnan kölluð Bella, sem bjó í áratugi á Akureyri og er mörgum eftirminnileg.
Fleiri gamlar myndir frá Minjasafninu á Akureyri er hægt að skoða HÉR