Mannlíf
Gamla myndin: veistu hvar þetta er?
06.09.2024 kl. 06:00
Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 200. gamla myndin frá safninu sem birtist hér, flestar hafa vakið mikil viðbrögð og upplýsingar hafa borist um langflestar myndirnar.
Hefurðu hugmynd um hvar mynd dagsins er tekin? Berðu jafnvel kennsl á fólkið á myndinni? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um staðinn eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net
- Myndin hér að neðan birtist fyrir viku. Þetta er gamla kirkjan á Reykhólum sem er nú í Saurbæ á Rauðasandi.
„Núverandi kirkja á Reykhólum var vígð 1963. Gamla kirkjan stóð hins vegar á sínum stað fram til 1975, þegar hún var tekin ofan. Allir viðir hennar voru merktir, þannig að auðvelt yrði að koma henni einhvers staðar upp á ný, ef svo bæri undir, og fluttir suður á land til varðveislu,“ segir á vef Reykhólahrepps.
Efnið var allt geymt á Bessastöðum í umsjá þjóðminjavarðar. „Þar höfðu viðarbúntin þó stuttan stans, því að fljótlega var ákveðið að endurreisa kirkjuna vestur á Rauðasandi í stað þeirrar sem burtkallaðist í veðrinu mikla fyrir hálfri öld.“
Eftir að kirkjan var reist aftur var hún endurvígð 5. september 1982 af sr. Sigurði Pálssyni vígslubiskup og sjö prestum öðrum.
Fleiri gamlar myndir frá Minjasafninu á Akureyri er hægt að skoða HÉR