Fara í efni
Mannlíf

Gamla myndin: veistu hvar þetta er?

Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 193. gamla myndin frá safninu sem birtist hér og hafa flestar vakið mikil viðbrögð. Fólk sýnir iðulega gömlum myndum gríðarlegan áhuga og Minjasafninu hafa borist fjölmargar ábendingar um nöfn fólks og staðhætti eftir að mynd birtist opinberlega.

Hefurðu hugmynd um hvar þessi frábæra mynd að ofan gæti verið tekin? Jafnvel hvaða maður þetta er? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um staðinn eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri og ritstjórnar Akureyri.net, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net

  • Myndin hér að neðan birtist fyrir viku. Þetta er Garðarsbraut 21 á Húsavík, þar sem Póstur og sími var til húsa á sínum tíma. Húsið mun hafa verið byggt um miðjan sjötta áratuginn.
  • Akureyri.net deildi myndinni á Facebook síðunni Gamlar ljósmyndir eins og gert er á hverjum föstudegi. Þar skrifaði Elín Björg Ragnarsdóttir eftirfarandi:  „Þetta er gamla heimilið mitt Póstur og sími Húsavík. Pabbi var stöðvarstjóri þarna frá 1962-1987 og var íbúð á efri hæðinni fyrir fjölskyldu stöðvarstjóra líkt og var víða um land á þessum árum. Koparþak var sett á lægri bygginguna vegna leka fljótlega eftir að pabbi kom norður þannig að gluggaröndin efst er ekki lengur til staðar heldur koparfrontur. Upp úr 1980 var byggt við húsið og hýsir sá hluti nú Vínbúðina en gistiheimili er í þeim hluta sem er á tveimur hæðum. Síminn er svo með restina af húsinu í dag.“

Fleiri gamlar myndir frá Minjasafninu á Akureyri er hægt að skoða HÉR