Gamla myndin: veistu hvar þetta er?
Vikulega birtist gömul ljósmynd á Akureyri.net í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Þetta er 155. gamla myndin frá safninu sem birtist hér og hafa flestar vakið mikil viðbrögð. Fólk sýnir iðulega gömlum myndum gríðarlegan áhuga og Minjasafninu hafa borist fjölmargar ábendingar um nöfn fólks og staðhætti eftir að mynd birtist opinberlega.
Hefurðu hugmynd um hvar mynd dagsins er tekin og hvað fólk þetta er? Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um myndina eru hvattir til að senda þær til Minjasafnsins á Akureyri, á netföngin hg@minjasafnid.is og skapti@akureyri.net
- Myndin hér að neðan birtist fyrir viku og upplýsingar voru ekki lengi að berast. Bærinn er Gullbrekka í Saurbæjarhreppi hinum forna, nú Eyjafjarðarsveit.
- Lilja Sverrisdóttir skrifar: Afi minn og amma keyptu jörðina 1943 og byggðu þennan nýja hluta sem er á myndinni, ári seinna. Árið 1954 byggðu þau svo við þennan nýja hluta og rifu gamla bæinn. Í leiðinni snéru þau þakinu á syðri hlutanum svo stafninn snéri þá í suður en ekki austur eins og er á myndinni. Fyrir framan húsið standa frá vinstri hjónin Lára Jóhannesdóttir og Magnús Tryggvason, drengurinn fyrir framan held ég að sé Björn Heiðar Garðarsson frá Gilsá, systursonur Láru, næst er Haukur J. Magnússon yngri sonur þeirra og lengst til hægri er Hrafn Gíslason Johnsen, systursonur Magnúsar frá Vestmannaeyjum. Þetta er tekið í kringum 1950.
Fleiri gamlar myndir frá Minjasafninu á Akureyri er hægt að skoða HÉR
Upplýsingar hafa borist um langflestar myndanna frá Minjasafninu sem birst hafa hér síðustu missseri en óvenju lítið upp á síðkastið. Fólk er eindregið hvatt til þess að skoða gömlu myndirnar betur í því skyni að aðstoða safnið við að afla sem mestra upplýsinga.