Gaf út ferðabók um Ísland á úkraínsku

Andrii Gladii er frá Úkraínu, en hann kom fyrst til Íslands árið 2017, til þess að stunda skiptinám við Háskólann á Akureyri. Hann fór fljótt að hafa mikinn áhuga á tengingu þjóðanna sinna tveggja, Úkraínumanna og Íslendinga, eftir að hafa verið búsettur á Íslandi í svolítinn tíma. Hann gaf út fyrstu bók sinnar tegundar sem til er um Ísland á úkraínsku árið 2023, þar sem uppistaðan er dagbók hans frá eyjunni köldu, ferðalög um landið og lífið á Akureyri. Blaðamaður Akureyri.net settist niður með Andrii á bókasafninu, fékk að skoða bókina og forvitnast um sýn hans á lífið hérna og tengsl Íslands og Úkraínu.
Þetta er fyrri hluti viðtalsins við Andrii. Seinni hlutinn verður birtur á morgun.
Á MORGUN – SAKNAR ÚKRAÍNSKRA MELÓNA OG SÓLARINNAR
Andrii Gladii er frá stórri borg sunnarlega í Úkraínu, Zaporizhzhia. Hún státar af ríkri menningarsögu og er mikil iðnaðarborg, þekkt fyrir að í dag er stærsta kjarnorkuver Evrópu staðsett þar. Þegar Andrii kom fyrst að eldgosi á Íslandi, saknaði hann skyndilega heimahaganna, þar sem brennisteinslyktin minnti hann á verksmiðjureykinn sem leggur stundum yfir borgina. Lífið á Akureyri er talsvert öðruvísi, en eitthvað er það við norðurslóðir og íslenska náttúru, sem heldur fast í Andrii og veitir honum innblástur til þess að skrifa.
Andrii sýndi blaðamanni bókina sína (lengst til vinstri á myndinni), en hún er hluti af seríu frá úkraínsku forlagi sem gefur út bækur um lönd á norðurhveli. Áður hafa komið út bækur um Svíþjóð, Spitsbergen í Noregi og Írland. Nýjustu bækurnar eru bók Andrii um Ísland og ein um Kanada. Mynd: RH
Áhuginn á norðurslóðum kviknaði í skiptináminu
Þegar Andrii kom fyrst til Íslands, var hann skiptinemi í alþjóðasamskiptum og stjórnmálafræði frá háskóla í Póllandi, og var á Akureyri í þrjá mánuði. „Þegar ég svo kláraði námið mitt í Póllandi, langaði mig aftur til Akureyrar, og ég sótti um starfsnám hjá Norðurslóðaneti Íslands á Akureyri. Ég hafði fengið kynningu á heimskautarétti í HA, sem heillaði mig mjög, en ég hafði ekki velt þeim málum fyrir mér áður, þar sem norðurslóðir eru ansi fjarri heimahögunum. Stundum líður mér eins og norðurslóðir séu að mörgu leyti hliðstæður heimur sem mér finnst mjög áhugaverður.
Áður en ég kom, vissi ég í rauninni ekkert haldbært um land og þjóð, annað en að höfuðborgin héti Reykjavík
Ísland hafði þó vakið áhuga Andrii áður. „Ég var áhugasamur um Skandinavíu, og Ísland sem part af henni,“ segir Andrii. „Tónlistin heillaði mig, náttúran, vistfræðin og fleira hafði vakið áhuga minn. Þegar tækifærið til þess að fara til eins af Norðurlöndunum í starfsnám blasti við, varð ég því að stökkva á það.“
Byrjaði strax að skrifa dagbók og taka myndir
„Mér finnst landslagið á Íslandi ótrúlega áhugavert, og ólíkt því sem ég hafði kynnst áður,“ segir Andrii. „Á ferð um Ísland er hægt að sjá allt mögulegt. Eyðimerkur og svarta sanda, snjó í fjöllum og jökla, grænar hlíðar og allt mögulegt. Fjölbreytnin er ótrúlega heillandi.“ Andrii byrjaði strax á því að skrifa í dagbók, þegar hann kom fyrst til Íslands. Hann tók mikið af myndum og skrifaði stutta texta með, en þessar dagbókarfærslur og myndir eru uppistaðan í bókinni hans.
Elskar útivist í íslenskri náttúru
Náttúran og upplifun Andrii af henni taka mikið pláss í bókinni, en hann er óþreytandi í útivist. „Ég hef gengið mjög mikið á fjöll, bæði með Ferðafélagi Akureyrar og gönguklúbbnum 24x24 á Akureyri,“ segir Andrii. „Og þá næ ég alltaf góðu spjalli og vangaveltum um náttúruna og fæ að heyra allskonar sögur. Þarna hefur maður tíma til þess að rabba klukkutímum saman við allskonar fróða einstaklinga og ég hef nýtt mér það, auk þess að hafa ótrúlega gaman af því að ganga um íslenska náttúru. Uppáhalds fjöllin mín eru Strýta og Kerling í Eyjafirði. Ég er hrifinn af fossum líka, og þá eru Dynjandi á Vestfjörðum og Dettifoss í uppáhaldi. Svo er Akureyri uppáhalds staðurinn minn á Íslandi. Það er allt hérna sem maður þarf, þetta er ört vaxandi bær sem er mjög lifandi.“
Andrii hefur gengið mikið á fjöll á heimavelli í Eyjafirðinum. Hann hefur farið með gönguhópum af svæðinu og dottið inn í fróðlegt spjall með göngufélögunum á leiðinni. Mynd úr einkasafni Andrii.
Heillaðist strax af íslenskri tungu
„Ég varð strax mjög áhugasamur um tungumálið,“ segir Andrii, en hann er forvitinn um tungumál og tengsl tungumála almennt. „Fyrst fannst mér skrifuð íslenska alveg óskiljanleg, en ég sá fljótlega einhver líkindi með öðrum germönskum tungumálum eins og ensku, þýsku og sænsku.“ Aðspurður um fyrstu kynni hans af fólkinu í landinu, þá segist hann ekki hafa verið með neinar hugmyndir um það fyrirfram, hvernig Íslendingar væru.
„Áður en ég kom, vissi ég í rauninni ekkert haldbært um land og þjóð, annað en að höfuðborgin héti Reykjavík,“ segir Andrii. „Það var í ágúst 2017 sem ég kom fyrst, og fyrsti dagurinn var hráslagalegur. Grátt veður á suðvesturhorninu og ég velti því fyrir mér hvað ég hefði nú eiginlega komið mér í núna! En veðrið snöggbreyttist næsta dag og þá var allt annað að sjá tilveruna. Ég sá fólk á ferli og ég fylgdist með þeim og gaf mig á tal við einhverja. Fyrstu kynni mín við ykkur einkenndust af gleði, mér fannst fólkið sem ég hitti vera hresst í bragði. Ég hugsa að það hafi áhrif á fólk hér, hvað það er auðvelt að vera einn og fólk er sjálft sér nóg. Í stórum borgum, eins og þar sem ég ólst upp, þá er maður hvergi einn nema innandyra í eigin húsi.“
Stríðið hefur áhrif á alla
„Ég tala ensku, pólsku og rússnesku, en reyni að forðast það síðastnefnda eins og ég get eins og staðan er í dag. Svo tala ég auðvitað úkraínsku og ég ætla mér að læra íslensku svo vel sé,“ segir Andrii og blaðamaður spyr hvort hann ætli sér að ílengjast á Íslandi. „Þetta er stór og erfið spurning, en mér líður vel hérna eins og staðan er. Þegar stríðið hófst heima, var mjög erfitt að vera í burtu, en fjölskyldan studdi mig og vinir mínir hérna á Akureyri voru dýrmætir. Ég á erfitt með að horfa til framtíðar en foreldrar mínir búa í Úkraínu og staðan er erfið. Hundruð manna hafa látist í borginni minni og það eru einhverjar drónaárasir frá Rússum alla daga.“
Andrii segist hafa fengið skyndilega heimþrá þegar hann kom að eldgosi á Reykjanesi. Brennisteinslyktin minnti hann svolítið á heimaborgina sína, en stærsta kjarnorkuver Evrópu er þar staðsett. Lyktin minnti hann á verksmiðjureykinn. Mynd úr einkasafni Andrii.
Saga Úkraínu er löng og rík
„Ég upplifi það, að fólk á Íslandi viti ekki mikið um Úkraínu,“ segir Andrii, en hann fór að taka viðtöl og forvitnast um ýmislegt í rannsóknarvinnu fyrir bókarskrifin. „Landið er stórt og fjölbreytt, með ríka og langa sögu. Margir telja okkur bara samgróin Rússlandi á einhvern hátt, en í rauninni er saga okkar eldri og tungumálið líka. Það væri eins og að bera saman sögu Íslands og Bandaríkjanna.“ Eftir að kynnast menningunni og samfélaginu á Íslandi nokkuð vel, fór Andrii að grúska í sögu þjóðanna tveggja og skoða tengslin á milli, sem reyndust meiri og eldri en hann hafði grunað.
„Titill bókarinnar minnar er í rauninni leikur að orðum, sem er svolítið erfitt að útskýra fyrir einhverjum sem talar ekki úkraínsku. Beinþýddur titillinn er í rauninni, á ensku - 'Northern days at midnight', eða 'Dagar miðnættis í norðri', eða eitthvað í þá áttina,“ segir Andrii. „Málið er, að á Úkraínsku, notum við sama orð fyrir 'miðnætti' og 'norður'. Þegar ég upplifði fyrst bjartar nætur á Íslandi, var það svo áhrifaríkt, vegna þess að það er aldrei bjart á miðnætti í Úkraínu. Mér datt í hug að þarna væri ef til vill einhver hugmynd að bókartitli. Þannig gat ég leikið mér aðeins að orðum á úkraínsku, að nota báðar útskýringar orðsins saman.“
Þetta var fyrri hluti viðtalsins við Andrii Gladii. Heyrum meira um bókina hans í seinni hluta viðtalsins, sem verður birt á morgun.
Á MORGUN – SAKNAR ÚKRAÍNSKRA MELÓNA OG SÓLARINNAR