Fyrstur Íslendinga á HM í „Flesh and Blood“
Akureyringurinn Garðar Darri Gunnarsson verður á næstunni fyrsti Íslendingurinn til þess að keppa á heimsmeistaramóti í safnspilaleiknum Flesh and Blood. Með þátttöku á þessu móti verður hann jafnframt aðeins annar Íslendingurinn til þess að keppa á nokkru stórmóti í leiknum.
Þetta kemur fram á akureyrska fréttavefnum Kaffinu.
Mótið fer fram í Barcelona á Spáni. Það hefst næsta fimmtudag og stendur til sunnudags.
„Garðar vann sér inn þáttökurétt á heimsmeistaramótinu þegar hann endaði í öðru sæti á Íslandsmóti í leiknum sem fram fór í Reykjavík á dögunum. Sjálfur hefur Garðar spilað Flesh and Blood í um það bil eitt og hálft ár, en hefur þó spilað ýmsa svipaða leiki frá unga aldri. Garðar segist vera vel undirbúinn fyrir mótið, enda er mikið í húfi,“ segir á Kaffinu.
Garðar Darri er þjálfari hjá hnefaleikadeild Þórs, „en um næstu helgi mun hann heyja bardaga þar sem ekki dugar að láta hnefana tala,“ eins og svo skemmtilega er að orði komist á Kaffinu.
Smellið hér til að lesa fréttina á kaffid.is