Friður, veðursæld og frábær samvera
„Hér er náttúrulega Costa del Akureyri!“ segir Heiðrún Sigurðardóttir, garðyrkjufræðingur hjá Matjurtargörðum Akureyrar. „Eitt sumarið man ég eftir konu sem var að vinna í garðinum sínum hérna á sundbolnum, það var svo geggjað veður.“ Það er kannski ekki að sjá núna, þegar það er snjór yfir öllu, en í Gömlu gróðrarstöðinni við Krókeyri er mikill hitapollur á sumrin.
Nú er verið að prikla sumarblóm í gróðurhúsunum í Gömlu gróðrarstöðinni. Mynd RH
Gróðrarstöðin, sem Akureyrarbær rekur, er rétt ofan við Iðnaðarsafnið og Mótorhjólasafnið. Hér er starfsfólk Matjurtagarðanna á fullu að undirbúa sumarið í gróðurhúsum. Litlar, grænar plöntur gægjast upp úr sáningarbökkum á hverju borði. „Við ræktum öll sumarblómin sem fara í beð Akureyrabæjar í sumar,“ segir Heiðrún. „Eins erum við að undirbúa matjurtarplöntur sem eru í boði fyrir þau sem verða með matjurtargarð í sumar.“
Við höfum alveg séð hvað krökkum finnst ótrúlega gaman að koma í garðana með mömmu og pabba eða ömmu og afa
Enn er hægt að sækja um að fá úthlutað garði í Matjurtargörðunum, en það er sótt um í þjónustugátt bæjarins. Heiðrún segir að enn sé eitthvað laust, þannig að það er um að gera fyrir áhugasöm að stökkva til. „Við erum með plönturnar til sölu, þannig að þú kemur hérna og 15 fm garðurinn þinn er tilbúinn, velur þér plöntur eða kemur með þínar eigin og plantar þeim.“ Fyrst var það þannig að með hverjum garði fylgdu ákveðnar plöntur, en núna er leigan á garðinum ódýrari og hægt að velja plönturnar eins og hentar.
Einu blómi lá á að líta dagsins ljós. Mynd RH
En fyrir hverja eru matjurtargarðarnir? „Garðarnir eru fyrir alla sem eru með lögheimili á Akureyri,“ segir Heiðrún. „Þetta er til dæmis frábært fyrir fjölskyldufólk, og við höfum alveg séð hvað krökkum finnst ótrúlega gaman að koma í garðana með mömmu og pabba eða ömmu og afa. Ég leik mér stundum að því að gauka að þeim svona töfrakartöflum sem þau fá að sá, en þær eru kóngabláar. Svo verður aldeilis gaman þegar upp koma glæsilegar bláar kartöflur og foreldrarnir alveg hissa!“
„Þegar ég tók við hérna, lagði ég strax mikið upp úr því að gera þetta skemmtilegt fyrir fjölskyldur,“ segir Heiðrún. „Við komum okkur upp hjólbörum og verkfærum í barnastærð svo að krakkarnir geti tekið virkan þátt. Þetta er fræðsla, útivera, núvitund, samvera og upplifun.“ Heiðrún segir að það skapist mjög skemmtilegt samfélag á hverju sumri í kring um garðana og það séu líka alltaf einhverjir sem hafa verið lengi, en það er hægt að framlengja leiguna á garðinum sínum eins og hver vill. Frá 7.30 - 15.30 er starfsfólk í görðunum, þannig að þau sem eru smeyk við að henda sér af stað í matjurtaræktun ættu ekki að kvíða því að fá enga aðstoð.
Við vorum svo að taka eftir því að fólk var að hætta með garðinn sinn vegna þess að það væri erfitt fyrir bak og hné að vinna í garðinum, þannig að í ár ætla ég að prófa að gera upphækkaða garða
Litlar tómatplöntur að fæðast. Mynd RH
„Það er mikið til eldra fólk sem hefur garða hjá okkur,“ segir Heiðrún. „Við vorum svo að taka eftir því að fólk var að hætta með garðinn sinn vegna þess að það væri erfitt fyrir bak og hné að vinna í garðinum, þannig að í ár ætla ég að prófa að gera upphækkaða garða með pallettum. Vonandi verður það til þess að fólk getur haldið áfram að rækta sársaukalaust.“
Það er líka ekkert bara grænmetið og uppskeran. Þetta er friður, samvera, útivist og fræðsla
„Þetta er ódýrara og betra,“ segir Heiðrún, aðspurð um það hvers vegna fólk ætti að leggja á sig að rækta grænmeti í staðin fyrir að kaupa það út í búð. „Gulrót sem þú tekur upp úr moldinni og borðar, er miklu betri en þessi sem liggur í matvörubúðinni. Það er líka ekkert bara grænmetið og uppskeran. Þetta er friður, samvera, útivist og fræðsla. Við erum búin að sjá fólk koma gjörsamlega blautt á bak við eyrun en eftir nokkur ár eru þau eins og hörku grænmetisbændur og búin að þróa alls konar sniðugar lausnir.“
„Fólk er oft hérna tímunum saman á sumrin,“ segir Heiðrún. „Veðrið er oft svo dásamlegt, engin hafgola, við erum alveg í skjóli hérna. Eldra fólkið er að taka barnabörnin með í garðana og þetta býður upp á svo skemmtilegar samverustundir, svo við tölum nú ekki um hollt og gott snakk beint upp úr jörðinni,“ segir Heiðrún að lokum.
Heiðrún heldur úti Instagram reikningnum "Garðurinn minn", fyrir áhugasöm um garðyrkju.