Mögulega einhverjir sem fara að grenja
Nýtt akureyrskt hlaðvarp – podcast – hefur göngu sína í þessari viku. Það eru Friðrik Ómar Hjörleifsson, söngvari og tónleikahaldari, og Pétur Guðjónsson, leikhúsmaður og viðburðastjóri í Verkmenntaskólanum, sem spjalla þar og spekúlera. Báðir eru fyrrverandi útvarpsmenn.
„Við félagarnir tölum oft um fjölmiðla og þá sérstaklega akureyska, þar sem við kynntumst fyrir um 20 árum á Frostrásinni og Ljósvakanum, sem síðar varð FM Akureyri. Hins vegar vorum við aldrei saman í neinni dagskrárgerð og núna fannst okkur tími til kominn. Hlaðvarpið er skemmtilegur vettvangur og ástandið í þjóðfélaginu kallaði á að gera eitthvað skemmtilegt. Þannig að það var upphafspunktur, gera podcast,“ segir Pétur Guðjónsson, spurður um framtak þeirra vinanna.
„Eftir miklar vangaveltur komumst við að nafninu en þátturinn er tekinn upp á heimili Friðriks hér á Akureyri, gamla Reykhúsið sem hefur sögulega tengingu við útvarp, þar sem þetta var fyrsta starfsstöð Ríkisútvarpsins á Akureyri og Pálmi Stefánsson rak þar hljóðver um tíma.“
Hispurslausir - og stutt í húmorinn
Þeir stefna að því að þátturinn verði um klukkustundar langar og sendur út einu sinni í viku, þótt Pétur segi að vel getið farið svo að það verði breytilegt eins og er gjarnan á þessum vetvangi.
„Við ætlum að taka fyrir eitt málefni í hverjum þætti, fáum einn gest í Reykhúsið en erum með fasta liði. Hafdís Alda er sérlegur fréttaritari af Eyrinni á Akureyri og svo er Færeyingur vikunnar á línunni, sem er reyndar alltaf sá sami – Jógvan Hansen.“
Í fyrsta þættinum, sem kemur út í þessari viku ætla Pétur og Friðrik Ómar „að ræða mál sem alla snertir á einhvern hátt, segjum ekki meira, svona til að vekja spennu!
Það sem hlustendur mega búast við er þáttur þar sem við ræðum ýmis mál á frekar hispurslausan hátt og alltaf verður frekar stutt í húmorinn. Kannski mætti segja að hann sé ekki fyrir viðkvæma og við segjum að mögulega fari einhver að grenja. Það skal þó tekið fram að við ætlum ekki í neina æsifréttamennsku eða að grafa upp einhvern skít. Bara tala um málin af hreinskilni og leyfa okkur að gera grín að okkur sjálfum og öðrum,“ segir Pétur Guðjónsson.