Fara í efni
Mannlíf

Freyja Rún tendraði ljósin á jólatrénu

Freyja Rún Yannicksdóttir Hoeing kveikti ljósin á jólatrénu á Ráðhústorgi. Hér er hún ásamt móður sinni, Guðrúnu Friðriksdóttur, og ónefndum jólasveini. Fáir þekkja þá í sundur! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Akureyringar fjölmenntu á Ráðhústorg síðdegis í ljómandi góðu veðri þegar ljósin voru tendruð á jólatré bæjarbúa. Það var tveggja ára stúlka, Freyja Rún Yannicksdóttir Hoeing, sem sá um að ýta á takkann að þessu sinni. 
 
Tréð á torginu var í áratugi gjöf frá Randers, vinabæ Akureyrar í Danmörku, en á aðventunni í fyrra var ákveðið að hætta að flytja tré að utan til þess að minnka kolefnissporið og þess í stað er valið tré úr bæjarlandi Akureyrar. Það er reisulegt og fallegt að þessu sinni, eins og venjan er.
 
 
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Samkoman hófst með því að Lúðrasveit Akureyrar lék nokkur jólalög undir stjórn Sóleyjar Bjarkar Einarsdóttur. Jólasveinar stigu síðan á svið, léku við hvern sinn fingur og voru svo elskulegir að hleypa bæði Geir Kristni Aðalsteinssyni, nýjum ræðismanni Danmerkur á Norðurlandi, og Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri, á svið og í míkrófón. Geir flutti Akureyringum góða kveðju frá borgarstjóra Randers og Ásthildur flutti stutta jólahugvekju.
 
Að því loknu komu mæðgurnar Freyja Rún og Guðrún Friðriksdóttir á svið, fjölskyldufaðirinn, Daninn Yannick Hoeing, var ekki langt undan og Ásthildur bæjarstjóri hjálpaði jólasveinunum að telja niður þar til Freyja Rún fékk að ýta á takkann og tendra þannig ljósin.
 
Því næst söng Barnakór Akureyrarkirkju undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttir áður en jólasveinarnir trölluðu klassísk jólalög með gestum á Ráðhústorgi og viðburðinum lauk með því að sveinarnir vinsælu sátu fyrir á myndum með fjölda barna og buðu viðstöddum að þiggja hollt jólagóðgæti úr pokum sínum.
 

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson