Fara í efni
Mannlíf

Frábært Þórslið fyrst til að vinna Keflavík

Madison Anne Sutton skorar í leiknum gegn Keflvíkingum í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar urðu í dag fyrstir til þess að sigra Keflvíkinga í efstu deild Íslandsmóts kvenna í körfubolta í vetur. Liðin mættust í Íþróttahöllinni á Akureyri og Stelpurnar okkar unnu 87:83. Þórsarar, nýliðar í deildinni, höfðu forystu allan tímann fyrir utan fáeinar sekúndur snemma í fyrsta leikhluta, og sigurinn var mjög sanngjarn.

  • Skorið eftir leikhlutum: 27:21 – 27:15 – (54:36) – 10:22 – 23:25 – 87:83

Frammistaða Þórsara var allt að því undraverð í fyrri hálfleik þegar þeir lögðu grunninn að sigri með hreint frábærri frammistöðu, sérstaklega í öðrum leikhluta. Þórsstelpurnar náðu mest 22 stiga forystu en 18 stigum munaði í hálfleik.

Sjálfstraustið í lagi

Hulda Ósk Bergsteinsdóttir gaf tóninn strax í fyrstu sókn með þriggja stiga körfu og ekki fór á milli mála að Þórsarar voru mjög vel stemmdir. Þeir ætluðu greinilega að selja sig dýrt gegn toppliðinu og eftir slæmt tap gegn Grindvíkingum á útivelli í síðasta leik var sjálfstraustið augljóslega komið í lag á ný.

Brotið á Lore Devos í dauðafæri í síðasta leikhluta. Hún var lengi í gang í kvöld en gerði 10 stig.

Tvær mikilvægar meiddust

Þórsarar urðu fyrir miklu áfalli þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik og munurinn 20 stig, 51:31, þegar Maddie Sutton og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir meiddust báðar og fóru sárkvaldar af velli. Eftir að Maddie sendi boltann laglega frá sér í teignum lenti hún á Huldu sem fékk högg á annað hnéð, en Maddie sneri sig á ökkla. Myndir af Maddie og Huldu Ósk eru neðst í fréttinni.

Báðar höfðu verið mjög öflugar og meiðsli þeirra höfðu eðlilega ekki góð áhrif á liðið. Þriðji leikhluti var slæmur, gestirnir unnu hann mjög örugglega og fyrir síðasta fjórðung munaði aðeins sex stigum; staðan þá 64:58.

Jovanka Ljubetic var mjög góð í kvöld. Þetta var líklega besti leikur hennar í vetur.

Snemma í síðasta leikhluta kom Maddie aftur inná og það skipti gríðarlega miklu máli. Aðdáunarverður leikmaður, Maddie, og var frábær í leiknum eins og tölfræðin sýnir; hún gerði 26 stig, tók 10 fráköst og átti 5 stoðsendingar en lék einungis 25 mínútur og 10 sekúndur en alla jafna er hún innan vallar lungann úr leikjum eða jafnvel allar 40 mínúturnar.

Maddie var sem sagt fremst í flokki eins og oft áður, en liðsheild Þórsara er orðin skemmtilega góð. Jovanka Ljubetic hefur líklega ekki leikið betur í vetur en hún gerði í kvöld, Eva Wium, Heiða Hlín og Hrefna skoruðu ekki mikið en leika allar mjög mikilvæg hlutverk.

Lore Devos, sem hefur leikið mjög vel í vetur, voru ótrúlega mislagðar hendur undir körfunni lengi vel í kvöld. Hún gerði ekki fyrstu körfuna fyrr en fimm og hálf mínúta var eftir; skoraði þá með skoti utan þriggja stiga línunnar og það leyndi sér ekki að þungu fargi var af henni létt. 

Eva Wium Elíasdóttir hafði óvenju hægt um sig í kvöld en er einn mikilvægasti hlekkurinn í þeirri sterku keðju sem Þórsliðið er.

Tölfræði Þórsara; stig - fráköst - stoðsendingar:

  • Maddie Sutton 26 - 10 -5
  • Jovanka Ljubetic 17- 9 - 2
  • Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 12 - 4 - 1
  • Lore Devos 10 - 6 - 7
  • Eva Wium Elíasdóttir 8 - 3 - 6
  • Hrefna Ottósdóttir 7 - 5 - 0
  • Heiða Hlín Björnsdóttir 4 - 6 - 1
  • Rebekka Hólm Halldórsdóttir 3 - 0 - 0

Þórsliðið hefur nú unnið fimm leiki í deildinni og er í 5.-6. sæti, með jafn mörg stig og Íslandsmeistarar Vals. Keflvíkingar eiga átta sigurleiki að baki, eins og fyrir viðureign dagsins, og eru áfram á toppnum.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum á vef KKÍ.

Maddie Sutton og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir sárkvaldar eftir að þær rákust saman ogmeiddust báðar undir lok fyrri hálfleiks. Svæðið við varamannabekk Þórsara líktist sjúkrastofu í framhaldinu.