Fara í efni
Mannlíf

Frábær sigur Þórs/KA á Breiðabliki

Una Móeiður Hlynsdóttir andartaki eftir að hún tryggði Þór/KA sigur á Breiðabliki í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA vann 3:2 sigur á Breiðabliki í annarri umferð efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Leikur liðanna fór fram á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) og lauk rétt í þessu. Mörk Þórs/KA gerðu Karen María Sigurgeirsdóttir, Sandra María Jessen og Una Móeiður Hlynsdóttir.

Leikurinn fór vel af stað og voru fyrstu 10 mínútur leiksins afar fjörlegar. Sandra María Jessen komst í gott færi strax í upphafi leiks en skot hennar fór rétt fram hjá markinu. Stuttu seinna fékk Katrín Ásbjörnsdóttir, framherji Breiðabliks, dauðafæri en skot hennar af markteig fór yfir markið.

Eftir fjörlega byrjun róaðist leikurinn töluvert og varð hann frekar lokaður það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Báðum liðum gekk illa að skapa sér opin færi og boltinn gekk mikið á milli liðanna.

Fyrsta mark leiksins leit þó dagsins ljós undir lok fyrri hálfleiks nánar tiltekið á 45. mínútu. Karen María Sigurgeirsdóttir kom heimakonum þá í 1:0 með skallamarki eftir góðan undirbúning frá Huldu Ósk Jónsdóttur. Heimakonur voru því með eins marks forystu þegar flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn var mun fjörlegri en sá fyrri. Heimakonur voru ekki lengi að tvöfalda forystu sína en á 49. mínútu skoraði Sandra María Jessen eftir stoðsendingu frá Margréti Árnadóttur. Þarna var staðan orðin vænleg fyrir heimaliðið.

Þrátt fyrir mark Söndru gáfust gestirnir ekki upp og minnkuðu muninn í 2:1 aðeins fimm mínútum síðar. Agla María Albertsdóttir skoraði þá úr vítaspyrnu eftir að Agnes Birta felldi Katrínu Ásbjörnsdóttur í teignum og vítaspyrna var réttilega dæmd.

Agla María var svo aftur á ferðinni á 77. mínútu leiksins þegar hún jafnaði metin með frábæru skoti utan vítateigs. Agla fékk nægan tíma til að athafna sig og átti skot sem hafnaði í slánni og þaðan í netinu.

Eftir seinna mark Öglu Maríu stefndi allt í að liðin myndu skipta stigunum með sér. En á 90. mínútu leiksins skoraði Una Móeiður Hlynsdóttir þriðja mark heimakvenna í leiknum eftir að boltinn hrökk til hennar í teig gestanna. Lokatölur urðu því 3:2 heimakonum í vil og frábær sigur Þórs/KA liðsins staðreynd.

Eftir leikinn er Þór/KA komið með 29 stig, fer með sigrinum upp fyrir FH og situr nú í 5. sæti deildarinnar. Sigurinn hafði einnig þau áhrif að Valur er Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu en Breiðablik hefði þurft að vinna leikinn til að halda titilvonum sínum á lífi.

Nánari umfjöllun á eftir