Fara í efni
Mannlíf

Forsetinn útskrifar úr Vísindaskólanum

Glaðir nemendur í Vísindaskóla unga fólksins á síðasta ári.

Undirbúningsvinna fyrir Vísindaskóla unga fólksins er nú í fullum gangi enda styttist í hann. Hann verður starfræktur vikuna 12. til 16. júní og er ætlaður börnum á aldrinum 11-13 ára. Enginn annar en forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verður heiðursgestur við útskrift skólans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

Dagskrá Vísindaskólans tekur mið af því sem er að gerast bæði hér heima og í heiminum öllum. Skráning stendur yfir.

„Meðal þeirra verkefna sem nemendur vinna með er netöryggi og þær umferðarreglur sem gilda á samfélagsmiðlum en það mál hefur verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu. Af hverju verða stríð í heiminum og hvernig er að missa heimili sitt og heimaland? Það verður líka segið á léttari tóna og fjallað um gæludýr, sundlaugarvatnið okkar og skólpið. Magni Ásgeirsson ætlar búa til tónlist með nemendum og þeir fá að stíga á svið. Loks fá þátttakendur að máta sig í störf lögreglumannsins.“

Vísindaskólinn hefur verið árlegur sumarboði í Háskólanum á Akureyri frá árinu 2015. Sigrún Stefánsdóttir hefur verið skólastjóri frá upphafi. Hún segir að þetta sé það verkefni sem henni þyki vænst um af öllu því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur.

Sigrún segir að einvala lið komi að kennslunni og allt sé gert til þess að nemendur upplifi vikuna sem gefandi og jákvæða. Tæplega 30 styrktaraðilar, stórir og smáir, en allir mikilvægir, koma að fjármögnun skólans, að sögn Sigrúnar.

Alls er hægt að taka á móti 70-80 börnum og enn eru nokkur pláss laus. Forráðamenn barna eru hvattir til þess að sækja um sem fyrst. Þátttökugjaldið er 25.000 kr. og það er hægt að nota frístundastyrkinn við greiðslu skólagjalda.

Nánari upplýsingar má finna á www.visindaskoli.is