Fara í efni
Mannlíf

Flugu til 35 borga með ólympíueldinn

Akureyringurinn Arngrímur B. Jóhannsson flugstjóri og þáverandi eigandi flugfélagsins Atlanta tók að sér skemmtilegt verkefni árið 2004 ásamt sínu fólki hjá félaginu: að fljúga með ólympíueldinn frá Grikklandi um víða veröld í rúmar fimm vikur áður en haldið var til Aþenu á ný.

Gaman er að rifja þetta upp nú, skömmu eftir óvenjulega og stórbrotna setningarhátíð Ólympíuleikanna í París (sem sumum þótti reyndar leiðinleg, en það er önnur saga), þar sem tveir franskir íþróttameistarar bundu enda á ferðalag kyndilsins með eldinn í ár; hlaupadrottningin Marie-Jose Perec og júdómeistarinn mikli, Teddy Riner, kveiktu Ólympíueldinn sem loga mun í París meðan á leikunum stendur.

Leikarnir loks „heima“ á ný

Skráð saga Ólympíuleika hefst árið 776 fyrir Krist og voru þeir haldnir á fögurra ára fresti allt til ársins 394 eftir Krist. Leikarnir voru endurvaktir árið 1896 þegar þeir fóru fram í Grikklandi en þar voru þeir ekki haldnir aftur fyrr en á því herrans ári 2004. Í tilefni þess að leikarnir komu loks heim á ný var ferðalag ólympíueldsins óvenju langt og glæsilegt.

Morgunblaðið birti þetta skemmtilega kort sem sýndi vel leiðina sem starfsmenn Atlanta flugu um veröld víða með Ólympíueldinn.

Alþjóða ólympíunefndin tók tvær Boeing 747 Jumbo þotur Atlanta á leigu ásamt áhöfnum og voru vélarnar vitaskuld sérstaklega merktar af þessu tilefni. Á hefðbundnu ferðalagi komast 480 manns í hvora vél en þær rúmlega fimm vikur sem ferðalagið með eldinn stóð yfir voru um 100 manns í hvorri. Með í för voru starfsmenn Ólympíuhreyfingarinnar og fjölmiðlamenn. Vélarnar voru innréttaðar sérstaklega enda bjó mannskapurinn um borð allan tímann, að sögn Arngríms.

Fjöldi starfsmanna Atlanta kom að verkefninu og voru um 20 þeirra í hvorri vél hverju sinni; flugstjórar, flugmenn, flugþjónar og flugvirkjar.

„Við máttum aldrei segja neitt frá ferðalaginu á sínum tíma og ekki birta neinar myndir. Við gátum ekki nýtt okkur þetta í auglýsinga- eða kynningarskyni því Coca Cola átti einkarétt á öllum auglýsingum í tengslum við þetta. En það er gaman að segja frá þessu núna, 20 árum síðar,“ segir Arngrímur við Akureyri.net.

Flugmenn skrá nákvæmar upplýsingar um hvert einasta flug; hér má sjá tvö sýnishorn úr „loggbók“ Arngríms Jóhannssonar úr ferðalaginu með Ólympíueldinn fyrir 20 árum þar sem hann sat sjálfur í flugstjórasætinu fyrstu dagana.

Eldurinn er ætíð tendraður í borginni Ólympíu í Grikklandi og að því búnu er ferðast með hann í sérútbúnum kyndlum þar til komið er á áfangastað og ólympíueldur viðkomandi borgar kveiktur. 

Á ferðalaginu 2004 var komið við í öllum borgum þar sem Ólympíuleikar höfðu farið fram, einnig þar sem þegar hafði verið ákveðið að leikar yrðu haldnir og í nokkrum borgum að auki vegna mikilvægi þeirra á heimsvísu, eins og það var orðað. Staldrað var við í öllum heimsálfum nema Suðurskautslandinu og nefna verður að aldrei áður hafði ólympíueldurinn verið fluttur til Afríku né Suður-Ameríku. Ferðalagið er því skráð í sögubækur.

Passað vel upp á eldinn

„Kyndlar með ólympíueldinum voru um borð í annarri vélinni, geymdir í sérstökum glerkössum,“ segir Arngrímur. „Tveir menn sátu við kassana allan tímann; annar til þess að passa að eldurinn héldist á lífi en hinn átti að sjá til þess að eldurinn breiddist ekki út,“ segir flugstjórinn þegar hann er beðinn að rifja ævintýrið upp. Hvort tveggja er afar mikilvægt en nefna má sem dæmi að slökkni eldurinn þarf að byrja upp á nýtt; halda aftur til Ólympíu og kveikja annan eld.

Morgunblaðið skúbbaði fréttinni um að Atlanta flygi með ólympíueldinn í forsíðufrétt 27. maí, nokkrum dögum áður en lagt var í'ann. 

Arngrímur segir að mikið hafi verið um dýrðir hvarvetna þar sem staldrað var við á ferðalaginu. Alls staðar var hlaupið með eldinn og fjöldi fólks fylgdist með og tók þátt, þannig að úr varð hátíð, einskonar skrúðganga, hvar sem komið var.

Leiðangurinn stóð í rúmar fimm vikur, frá 2. júní til 9. júlí og á þeim tíma var flogið til 35 borga. Í fyrsta áfanga var flogið frá Aþenu til Ástralíu. Þaðan var haldið til Japans, Suður-Kóreu og Kína, síðan til Indlands og þaðan til Egyptalands. Frá Kaíró var flogið suður til Höfðaborgar í Suður-Afríku, þaðan til Rio í Brasilíu, svo til Mexíkó, Bandaríkjanna og Kanada áður en flogið var til Evrópu á ný og komið við á fjölda staða. Ferðalaginu lauk síðan í Aþenu þar sem leikarnir fóru fram eins og áður segir.