Fara í efni
Mannlíf

Flöskubásar – Dýrasta flaskan á 350 þúsund!

Flöskubásar eru nýjung á „stærri og betri“ Vamos sem opnaður verður í kvöld. Básana er hægt að bóka á heimasíðu staðarins en þar er líka hægt að finna flöskulistann.

Skemmtistaðurinn Vamos við Ráðhústorg hefur verið stækkaður og þar er nú boðið upp á útleigu á flöskubásum í anda erlendra klúbba. Eigendur Vamos segja eftirspurn eftir þessari þjónustu á Akureyri.

Undanfarið hafa staðið yfir miklar breytingar á efri hæðinni á Vamos. Framkvæmdum er nú lokið og staðurinn orðinn 130 fm stærri. Dansgólfið nýtur góðs af stækkuninni, þá hefur bæst við fatahengi, salerni og útireykingasvæði. Stærsta breytingin er þó fólgin í því að búið er að bæta fjórum básum við efri hæðina sem hægt er að bóka sérstaklega með kaupum á heilum vínflöskum.

„Með því að bóka flöskubás þá ertu að kaupa þig fram fyrir röð inn á staðinn. Þá ertu líka búinn að tryggja þér þjónustu og öruggt sæti fyrir þig og þinn hóp, en ert samt sem áður í stemmingunni. Þessi kúltúr er mjög þekktur á klúbbum erlendis,“ segir Halldór Kristinn Harðarson, þekktur sem Dóri á Vamos, við Akureyri.net. „Þú kaupir flösku á borðið af flöskulistanum okkar. Flaskan tryggir þér básinn í tvo tíma en síðan er hægt að framlengja með kaupum á nýrri flösku.“

Eftirspurn eftir þessari þjónustu

Ef rennt er yfir flöskulista Vamos kemur í ljós að ódýrasta flaskan á listanum er á 35.000 kr. en sú dýrasta á 350.000 kr. Aðspurður hvort það sé virkilega markaður fyrir svona þjónustu á Akureyri þá segir Dóri svo sannarlega vera. „Það er eftirspurn eftir þessari þjónustu og margir hafa hreinlega verið að bíða eftir þessu. Akureyri er að stækka og sífellt fleiri ferðamenn koma hingað sem þekkja þetta konsept frá sínum heimalöndum. Við höfum áður selt flöskuborð hér á Vamos en höfum ekki haft aðstöðu til að ramma þetta svona inn með formlegum hætti fyrr en núna með þessari stækkun. Þá hef ég líka oft selt flöskuborð á viðburðum í Sjallanum svo ég veit að fólk kann að meta þetta,“ segir Dóri og bendir á að flöskubásarnir séu t.d. hentugir fyrir afmæli, gæsanir eða steggjanir. „Svo er þetta líka bara upplifun.“

Básar í suðrænum anda

Mikið hefur verið lagt í flöskubásana á Vamos en þeir eru skemmtilega hannaðir í sama suðræna anda og annað á Vamos. „Þeir eru allir fansý og í þessum útlanda fýling en þó mismunandi,“ segir Dóri sem vill ekki ljóstra of miklu uppi. Fólk verði bara að koma og sjá. Segir hann að nú þegar séu nokkrar básapantanir komnar fyrir opnunarkvöldið en „nýr og betri“ Vamos verður opnaður kl. 23.00 í kvöld, laugardagskvöld.