Fara í efni
Mannlíf

„Flippaðir“ gististaðir við Eyjafjörð ...

Kúluhúsið á Árskógsströnd hefur verið mjög vinsælt hjá pörum sem eru að leita að rómantískri upplifun. Mynd: Stay´in Árbakki.

Ferðafólk á leið til Akureyrar og nágrennis í sumar hefur úr ýmsum gistimöguleikum að velja og sumir þeirra eru sannarlega flippaðri en aðrir. Viltu gista í kartöflugeymslu, kúluhúsi eða svefnhylki? Akureyri. net skoðaði bókunarsíður á netinu og fann nokkra skemmtilega gististaði fyrir þá sem eru að leita að öðruvísi upplifun í fríinu.
_ _ _

Gamaldags tjald úti í skógi


Gamaldags tjald – retrótjald – við Hótel Kjarnalund. Gisting í tjaldinu kostar 116 evrur en innifalið er aðgangur að heitum potti við hótelið. Mynd: airbnb.com

Eigendur Hótels Kjarnalundar í Kjarnaskógi bjóða upp á skemmtilegan kost fyrir þá sem vilja vera í nálægð við náttúruna, án þess að fórna of miklum þægindum. Þar er nefnilega hægt að bóka gistingu í appelsínugulu retrótjaldi við hótelið. Í tjaldinu eru hótel dýnur og sængurfatnaður frá hótelinu. Í auglýsingu segir að dvöl í tjaldinu gefi nálægð við fugla skógarins og kanínur. Þá er aðgangur að heitum potti við hótelið og salernisaðstöðu. https://www.airbnb.com/rooms/673951179520587467 . Gestir sem dvalið hafa í tjaldinu hafa verið hrifnir af upplifuninni og hafa skilið eftir ummæli á Airbnb á borð við: „Sönn íslensk upplifun“.

_ _ _

Gist í gamalli kartöflugeymslu

Í Innbænum á Akureyri hefur gamalli kartöflugeymslu verið breytt í gististað.

„Þú munt ekki gleyma þessari dvöl, hún er í raun upplifun! Við myndum koma aftur hvenær sem er!“ segir einn gestur sem gist hefur í Kartöflukotinu, í Innbænum á Akureyri. Um er að ræða gamla kartöflugeymslu sem breytt hefur verið í einstakan gististað. www.airbnb.com/rooms/34459029 Kartöflukotið hefur verið vinsælt hjá gestum sem hafa verið sérstaklega ánægðir með rúmið sem staðsett er inn í kósý skoti. Húsið er 35 fm að stærð og rúmar allt að fjóra gesti. Hávaxnir gætu þó þurft að beygja sig til þess að komast inn fyrir þar sem lofthæð er í lægri kantinum við innganginn. Þá er engin hurð inn á baðið aðeins hengi sem er dregið fyrir, en það hefur heldur ekki dregið úr áhuganum á Kartöflukotinu. „Ef þú ert að leita að einhverju nýju, einhverju öðruvísi, þá gæti þetta verið rétti staðurinn fyrir þig,“ segja húsráðendur í lýsingu á staðnum.

Það er vor í lofti og ferðahugur kominn í marga. Hvað með að gista í gamalli kartöflugeymslu í sumar? Mynd: Airbnb.com

_ _ _

Mongólskt „yurt“ tjald

Mongólsk yurt tjöld hafa bæst í gistiflóru landsins og víða er hægt að gista í slíkum tjöldum, líka í Eyjafirði.

Hægt er að kaupa gistingu í yurt tjöldum á nokkrum stöðum á landinu og í Eyjafirði er boðið upp á slíkan möguleika á Leifsstöðum í Eyjafjarðarsveit. https://www.airbnb.com/rooms/26988552 Þó sofið sé í rúmi er upplifunin sannarlega öðruvísi heldur en þegar gist er á hefðbundu hóteli. Fyrir það fyrsta er nálægðin við náttúruna mikil en frá tjaldinu er bæði fjalla- og fjarðarsýn. Húsráðendur taka á móti gestum og kenna þeim á viðarofninn svo þeir geti haldið hita á tjaldinu og hellt sér upp á te eða kaffi.

_ _ _

Gist í amerískum húsbíl

Þeir sem eru að leita að fallegu útsýni, friði og ró og öðruvísi upplifun geta bókað gistingu í stórum og stæðilegum amerískum húsbíl í 12 mín fjarlægð frá Akureyri. Mynd: Airbnb.com

Ef þig hefur dreymt um húsbílaferðalag en treystir þér ekki í að að keyra húsbíl á þjóðveginum þá er kannski bara málið að láta drauminn rætast með því að gista í einum slíkum? Við Þórustaði, sem er í um 12 mínútna akstursfjarðlægð frá Akureyri er hægt að bóka gistingu í stórum og stæðilegum amerískum húsbíl. https://www.airbnb.com/rooms/755054431136650917?source_impression_id=p3_1680600749_tjwXdiFC2a3Sol2O

Í auglýsingu á Airbnb fyrir þennan óvenjulega gististað segir m.a.: „Einstakur staður til að flýja til og leita í íslenska náttúru. Farðu bara út fyrir þægindarammann þinn. Njóttu sjávarútsýnisins og einfaldleika umhverfisins.“ Húsbílinn býður upp á öll nauðsynleg þægindi og er með hita, sturtu, salerni, kaffivél, ísskáp og eldhúsi. Þá er vert að benda á smáatriði eins og borðspil sem eru í bílnum, þannig að engum ætti að leiðast í bílnum. Húsbílinn hentar vel fyrir 6 fullorðna en þó geta allt að 10 manns gist þar. Ath: gestgjafinn er með annan húsbíl á sama stað, en hann er minni og hentar best fjórum fullorðnum.

Hvernig væri að prófa að gista í retró amerískum húsbíl? Mynd: Airbnb.com
_ _ _

Krúttlegt kúluhús

Fyrir pör í leit að rómantískum dvalarstað þá ætti kúluhúsið eða íglúhúsið á Árskógssandi https://stay-in-arbakki.com/en/igluhus/ ekki að valda vonbrigðum. Húsið, sem er eina sinnar tegundar á landinu að sögn húsráðanada sem leigt er út undir gistingu, er staðsett eitt og sér við lítinn læk og segja gestir í umsögnum um staðinn að þeim hafi liðið eins og þeir væru einir í heiminum þar. Þakgluggarnir á húsinu þykja einstaklega skemmtilegir en vegna formsins á húsinu er þar 360 gráðu útsýni. Hægt er að liggja í rúminu og horfa á stjörnur næturhiminsins eða á norðurljósin ef þannig ber undir. Húsið er lítið en hefur þó það sem þarf fyrir næturdvöl. Hægt er að hita sér kaffi, klósett er staðsett við hliðina á kúlunni en engin sturta.

_ _ _

Nýtískuleg svefnhylki

Svefnhylkin við göngugötuna á Akureyri eru sannarlega eins og úr einhverri vísindaskáldsögu. Gisting þar kostar frá 7000 krónum. Mynd: booking.com

Í göngugötunni á Akureyri er boðið upp á gistingu í nútímalegum svefnhylkjum á vegum hhostel.is . Hægt er að velja á milli einbreiðra og tvíbreiðra hylkja en inn í hverju hylki er rafmagn svo hægt er að taka síma eða önnur rafmagnstæki með inn í hylkin og hlaða þau þar. Eins er sjónvarpsskjár í hverju hylki. Svefnhylkin koma frá Japan en sambærileg svefnhylkjahótel finnast víðar á Íslandi og vítt og breitt umheiminn. „Einstök upplifun. Eins og að fara út í geim“ er meðal þess sem gestir hafa sagt um þennan gistimöguleika.