Fernir útitónleikar í Lystigarðinum í sumar
Í sumar verður haldin útitónleika sería í Lystigarðinum. Það er Reynir Gretarsson, eigandi kaffihússins LYST í garðinum, sem stendur fyrir skipulagningu tónleikanna. Ætlunin er að safna pening til styrktar garðinum.
„Þetta eru eiginlega tvö mismunandi fyrirtæki,“ segir Reynir. „Það er sumarrekstur og vetrarrekstur. Það er mjög ólíkt á marga vegu. Sumartörnin er byrjuð hjá okkur núna, en mér finnst sumarið vera farið að ná frá miðjum maí til loka september hérna á Akureyri.“ LYST hefur opið allt árið um kring, en nú er að ljúka öðrum vetrinum sem Akureyringar hafa getað stoppað í Lystigarðinum til þess að fá sér hressingu.
„Það er góð upplifun að hafa opið á veturna,“ segir Reynir. „Þetta er heimafólk sem er að koma, en við höfum keyrt mikið á fisk og grænmeti í hádeginu sem hefur verið ofboðslega vinsælt. Það er hádegismaturinn sem er vinsælastur yfir vetrarmánuðina. Við höfum verið að hafa allskonar viðburði líka; kvöldmatarviðburði, tónlistarviðburði og allskonar fleira.“ Tónlistarfólk af svæðinu hefur fengið tækifæri til þess að halda tónleika og mætti segja að LYST sé að skapa dýrmæta ramma fyrir grasrótina í tónlistarlífi bæjarins.
Ég er svolítið stoltur af því að Una Torfa hélt fyrstu tónleikana sína á LYST, þar sem hún seldi inn
„Mig langar að það sé svona stemning fyrir því hérna á veturna, að rölta í garðinn og kíkja á tónleika,“ segir Reynir. „Þó það sé ekki eitthvað frægt nafn, kannski tónlistarfólk af svæðinu sem er að stíga sín fyrstu skref, að sjá þetta sem tækifæri til þess að fara út og gera eitthvað. Við hikum ekki við það í útlöndum.“ Reynir segir að það sé þó alltaf að aukast, og viðburðir séu vel sóttir almennt.
„Ég er svolítið stoltur af því að Una Torfa hélt fyrstu tónleikana sína á LYST, þar sem hún seldi inn,“ segir Reynir. „Hún ætlar svo að koma aftur í sumar og vera hluti af útitónleikaseríu sem við erum búin að vera að skipuleggja í vor.“ Útitónleikasería LYST samanstendur af fernum tónleikum, sem verða haldnir á grasflötinni fyrir ofan LYST. „Mugison hélt tónleika hérna í fyrra, þá hafði hann sjálfur samband og óskaði eftir því að fá að halda tónleikana,“ segir Reynir. „Hann ræddi við garðinn og mig og fékk leyfi og sá svo um allt sjálfur. Ég seldi drykki og þetta var algjör sæla. Okkur fannst þetta heppnast frábærlega og þarna sá ég tækifæri.“ Reynir er að safna styrkjum í verkefnið og í sumar verða fernir tónleikar:
- 15. júní kl. 17 – LÓN
- 20. júlí kl. 21 – Una Torfa
- 17. ágúst kl. 17 – Júlí Heiðar
- 7. sept kl. 16 – KK
„Við erum svo að búin að bjóða ungu tónlistarfólki frá Akureyri að hita upp á tónleikunum,“ segir Reynir. „Þorsteinn og Þröstur hita upp fyrir LÓN, Hrefna Logadóttir spilar á undan Unu Torfa, enn vantar einhvern á undan Júlí Heiðari og svo spilar RAKEL á undan KK.“
„Til að svona viðburðir geti verið þá verðum við líka að átta okkur á því að við erum í Lystigarðinum,“ minnir Reynir á. „Sem er algjör draumaveröld og það þarf að fylgja umgengnisreglum. Ég trúi að fólk geti komið og notið þess að mæta á tónleika og gengið vel um garðinn.“
„Garðurinn er opinn allt árið og er stærsta aðdráttarafl bæjarins á sumrin að mínu mati,“ segir Reynir. „Verkefnið fyrir okkur öll, finnst mér, er að ná að lengja tímabilið, kannski með því að lýsa garðinn upp meira, moka stígana meira eða eitthvað slíkt. Ég sé fyrir mér Ljósagarð á veturna, engin tívolí stemning, heldur bara meira af fallegum ljósum og gönguleiðum. Við höfum verið að óska eftir þessu en það kemur alltaf svarið um að það vanti peninga. Þess vegna erum við að fara í þessa tónleikaseríu og safna pening fyrir garðinn.“ Reynir bendir á að enn sé möguleiki fyrir fyrirtæki að verða styrktaraðilar tónleikaseríunnar.