Fara í efni
Mannlíf

Fjölskyldan í öndvegi um jólin í Mexíkó

Stephany Mayor og Bianca Sierra í jólaskapi með hundinn sinn.

Bianca Sierra og Stephany „Fany” Mayor, landsliðskonur Mexíkó í fótbolta, léku nokkur ár með Þór/KA og teljast því Akureyringar – a.m.k. innan gæsalappa! Þær búa nú í heimalandinu og urðu á dögunum Mexíkómeistarar með liði Tigres. Þær skrifuðu þessa grein að beiðni Akureyri.net, þá fjórðu í flokki þar sem Akureyringar erlendis skrifa um jólahaldið.

_ _ _ _

Jólin í Mexíkó snúast að stærstum hluta um fjölskylduna. Á aðfangadagskvöld komum við saman heima hjá einhverjum í fjölskyldunni og allir mæta, amma og afi, frænkur, frændur og fjölskylduvinir. Oft eru þetta stór boð, stundum erum við jafnvel fleiri en 50! Boðin hjá mexíkóskum fjölskyldum byrja frekar seint, við byrjum til dæmis yfirleitt ekki að borða kvöldmatinn fyrr en um klukkan 10, þegar allur maturinn er tilbúinn. Allir koma með einhvern rétt með sér í boðið, en í Mexíkó eru margir hefðbundnir réttir sem bornir eru fram á jólum. Hér eru nokkur dæmi:

  • Pozole, sem er pottréttur, búinn til úr þurrkuðum maísbaunum og inniheldur yfirleitt líka kjúkling eða svínakjöt og er skreyttur með söxuðu káli, lauk, chilli pipar, radísum og salsa eða lime.
  • Tamales, sem er búið til úr korndeigi og soðið innan í maíshýði. Tamales er fyllt með kjöti, ávöxtum og grænmeti eða ostum.
  • Niño en vuelto, uppáhaldsréttur Fany, er rúlla af kjöti og beikoni, fyllt með osti og skinku, borin fram með sósu sem er búin er til úr tómatsósu og mayonesi.
  • Grillaður kalkúnn; fjölskylda Biöncu býr til kúbverska útgáfu af kalkúni sem borinn er fram með hvítlaukssósu.

Þetta eru bara nokkrir af þeim hefðbundnu réttum sem við borðum. Matartíminn tekur yfirleitt nokkra klukkutíma, allir fá sér tvisvar eða þrisvar á diskinn og mikið og lengi er setið og spjallað og hlegið. Allir njóta þess virkilega að vera saman. Hefð er fyrir því að opna jólagjafirnar á miðnætti en veislan stendur yfirleitt til klukkan fjögur eða fimm um nóttina. Allir fara þá til síns heima en síðan hittumst aftur daginn eftir, á jóladag, og borðum afgangana.

Mexíkóbúar eru kaþólikkar og sýna um hátíðarnar að þeir eru býsna trúaðir. Sumar fjölskyldur fara í kirkju á aðfangadag til að fagna fæðingardagi Jesú.

Í ár fara jólin því miður fram með allt öðru sniði en venjulega, vegna kórónuveirufaraldursins. Við hittum ekki stórfjölskylduna því fólk mun ekki koma saman í stórum hópum. Hver fjölskylda verður heima hjá sér þannig að allir halda upp á jólin einungis með sínum allra nánustu. Ég og Fany reynum yfirleitt að deila jólunum á milli fjölskyldnanna, erum á aðfangadag heima hjá foreldrum mínum og svo fljúgum við til Mexico City til að verja jóladegi með fjölskyldu Fany. Í ár verðum við hins vegar að hitta fjölskyldur okkar sitt í hvoru lagi og fara svo aftur heim til Monterrey á jóladag vegna þess að æfingar liðsins okkar hefjast á ný á öðrum degi jóla, eftir stutt frí.

Við vonum að þið, kæru Akureyringar, upplifið falleg, hvít jól. Við söknum Akureyrar mikið og eigum vonandi eftir að koma einhvern tíma aftur.

Feliz Navidad – Gleðileg jól!
Bianca Sierra og Stephany Mayor

FYRRI GREINAR

Hildur og Hermann í Brüssel

Bjarki og Elín í Boston

Arnór Þór og Jovana Lilja í Haan