Fara í efni
Mannlíf

Fjölmenn skólasetning í Menntaskólanum

Karl Frímannsson, skólameistari og Sigurlaug A. Gunnarsdóttir, aðstoðarskólameistri við setningu MA í morgun.

Menntaskólinn á Akureyri var settur í morgun. Aldrei hefur verið jafn fjölmennt við skólasetningu og greinilegt að margir foreldrar sem og nemendur hafa áhuga á skólastarfi vetrarins.

Skólameistari talar við gervigreindina daglega

580 nemendur hefja nám í MA á haustönn, þar af 180 í fyrsta bekk í sjö bekkjum. Við skólasetninguna hélt skólameistari ræðu að vanda og varð honum tíðrætt um tæknina og hversu mikilvægt það væri að nota hana til góðs, en staldra við ef hún veldur vanlíðan og hindrar framfarir. Sagðist hann styðja tækniframfarir og að hann tali sjálfur við gervigreindina nokkrum sinnum á dag.

Skólameistari, Karl Frímannsson, hvatti nemendur til þess að styrkja málskilning sinn og íslenskukunnáttu enda er lykillinn að notkun gervigreindarinnar góð tungumálakunnátta. Eins bað hann bæði nemendur og foreldra að nota húmor og leik þegar íslenskan væri annars vegar og hvatti til nýorðasmíða. Gott dæmi um slíkan leik væri hljómsveitin Feelnik , sem flutti tvö lög við skólasetninguna við mikinn fögnuð, en ef nafn hljómsveitarinnar er lesið aftur á bak myndar það orðið kynlíf.

Hljómsveitin Feelnik flutti lagið Kennarasleikja við skólasetninguna. 

Subbulegir nikótínpúðar

Nikótínpúða bar einnig á góma en aukning hefur orðið í notkun þeirra hjá nemendum MA þó nikótínneysla sé bönnuð í skólanum. Sagði skólameistari að skólayfirvöld myndu ekki eltast við að fjarlægja púða af nemendum en borið hefur á óþrifnaði í skólanum af völdum þeirra. Hafa notaðir púðar t.d. fundist innan um bækur á bókasafninu, í sófum og víðar. Líkti hann þeim við tyggjó og bað nemendur vinsamlegast um að henda þeim ekki svona frá sér, og auðvitað helst sleppa notkun þeirra, heilsu nemanda vegna.

120 ára afmæli framundan

Þá nefndi skólameistari að þess yrði minnst í október að 120 ár eru síðan elsta hús Menntaskólans var byggt og tekið í notkun. Ekki var notast við annað en handverkfæri á þeim tíma, fjöldi iðnaðarmanna og verkamanna var ráðinn til verksins og húsið, Gamli skóli, reis á aðeins fimm mánuðum árið 1904. Húsið er enn í fullri notkun, hver fermetri nýttur, eins og skólameistari orðaði það. Til stendur að halda upp á afmæli gamla skólahússins þann 8. október. 

Aldrei hefur verið jafn fjölmennt við skólasetningu MA en Kvosin  var stútfull af nemendum og forráðamönnum.