Fara í efni
Mannlíf

Fjöldi skemmtir sér á skíðum - MYNDIR

Vinirnir Óli og Sölvi voru eldhressir í Hlíðarfjalli fyrr í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Margir hafa notið lífsins í Hlíðarfjalli í dag og stemningin er góð; fólk lætur langar raðir ekki slá sig út af laginu áður en farið er upp með lyftunum, enda vissu allir að hverju þeir gengju; þótt tvöfalt fleiri megi vera á svæðinu en undanfarið er afkastageta stólalyftunnar sú sama því vegna sóttvarnarreglna má ekki sitja í hverju sæti.

Í Hlíðarfjalli mega nú vera 1500 til 1700 í einu og er sá kvóti fullnýttur. Fólk renndi sér á skíðum og brettum í ágætu veðri, þótt ekki sæist til sólar, og mjög margir brugðu sér líka á gönguskíði, eins og nú er mjög í tísku.

Mikill fjöldi ferðamanna er í bænum, margir einmitt komnir til að fara á skíði, hótel fullbókuð sem og margir aðrir gististaðir og þétt setinn bekkurinn á mörgum veitingastöðum eftir því sem næst verður komist.

Skíðasvæðið í Hliðarfjall er opið frá klukkan 10 til 19 alla daga til mánaðamóta, en skíðamönnum skipt í tvö holl; það fyrra getur skíðað frá klukkan 10 til 14 og hið síðara frá 15 til 19. Lyftum er lokað á milli 14 og 15.