Fara í efni
Mannlíf

Fimm MA-ingar í hópi styrkþega í HÍ

Fimm MA-ingar fengu styrk. Frá vinstri: Inga Rakel Aradóttir, María Björk Friðriksdóttir, Helga Viðarsdóttir, Magnús Máni Sigurgeirsson og Óðinn Andrason, sem tók við styrknum fyrir hönd Malínar Mörtu Eyfjörð Ægisdóttur. Mynd af vef MA.

Fimm stúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri voru í hópi 31 nýnema við Háskóla Íslands (HÍ) sem tóku í gær við styrk úr úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ við hátíðlega athöfn í Aðalbyggingu Háskólans. Styrkþegarnir koma úr öllum landshlutum og innritast í námsleiðir á öllum fimm fræðasviðum skólans. Hver og einn hlaut 375.000 krónur.

Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands var settur á laggirnar árið 2008 og var úthlutað úr honum í sautjánda sinn að þessu sinni. Í tilkynningu frá HÍ kemur fram að alls bárust 76 umsóknir um styrki úr sjóðnum að þessu sinni, og að allar hafi þær verið afar metnaðarfullar. 

Í tilkynningu HÍ er fjallað um alla þá sem hlutu styrk. Þetta segir þar um MA-ingana:

  • Helga Viðarsdóttir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri í júní 2023 og var semidúx skólans. Hún hefur enn fremur lokið miðprófi í rytmískum söng frá Tónlistarskólanum á Akureyri og þá æfði hún knattspyrnu í mörg ár með Þór/KA. Helga er innrituð í læknisfræði við Háskóla Íslands og hún hefur mestan áhuga á erfðalækningum og barnalækningum.
  • Inga Rakel Aradóttir brautskráðist frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 2023 og við útskrift hlaut hún viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði auk Menntaverðlauna Háskóla Íslands. Samhliða skóla hefur hún æft íshokkí með Skautafélagi Akureyrar og státar af
    fjölmörgum Íslandsmeistaratitlum í greininni. Hún hefur enn fremur átt fast sæti í kvennalandsliðinu í íshokkí í þrjú ár og í fyrravetur reyndi hún fyrir sér í íshokkí í Danmörku. Inga hefur hafið nám í vélaverkfræði.
  • Magnús Máni Sigurgeirsson brautskráðist frá Menntaskólanum á Akureyri í vor en hann var annar af semidúxum skólans og hlaut m.a. verðlaun í eðlisfræði, íslensku, stærðfræði og þýsku. Samhliða stúdentsnámi lauk hann smáskipanámi í skipstjórn og vélstjórn. Magnús Máni lét mikið að sér kveða í félagslífi MA, m.a. í stjórn skólafélagsins og í Gettu betur liði skólans. Þá ávann hann sér sæti í landsliðinu í líffræði og keppti með því á Ólympíumótinu í greininni í Kasakstan í sumar. Magnús Máni hefur hafið nám í stærðfræði með áherslu á tölvunarfræði.
  • Malín Marta Eyfjörð Ægisdóttir brautskráðist frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 2022 og hlaut verðlaun fyrir árangur í ensku og frönsku. Hún var virk í félagslífi skólans en dans, leiklist og ritlist hafa spilað stóra rullu í hennar lífi. Enn fremur var hún í Morfís-liði MA á lokaári sínu. Malín Marta hefur dvalið töluvert í Danmörku frá útskrift, bæði í lýðheilsuskóla og við dansnám og komst m.a. inn í dansnám í Copenhagen Contemporary Danceschool. Hugurinn leitaði hins vegar heim í nám í Háskóla Íslands þar sem hún hefur nú hafið nám í nýrri námsleið í blaðamennsku.
  • María Björk Friðriksdóttir brautskráðist frá Menntaskólanum á Akureyri í fyrravor og var dúx skólans. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á íþróttum og æfði lengi knattspyrnu með Þór og Þór/KA. Eftir að hafa kynnst sjúkraþjálfun hjá móðursystur sinni og sjálf leitað til  sjúkraþjálfara vegna íþróttameiðsla heillaðist María Björk af greininni og hefur nú innritast í sjúkraþjálfunarfræði í HÍ. 

„Frá upphafi hafa hátt í 500 framúrskarandi námsmenn hlotið styrki úr sjóðnum,“ segir í tilkynningu frá HÍ. „Auk námsárangurs á stúdentsprófi er litið frammistöðu á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum, við úthlutun úr sjóðnum. Hann styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi.“

Að þessu sinni bárust alls 76 umsóknir um styrki úr sjóðnum og voru þær afar metnaðarfullar, að því er segir í tilkynningunni. „Því var úr vöndu að ráða fyrir stjórn sjóðsins sem veitti að þessu sinni 31 nýnema við Háskóla Íslands styrk. Þeir koma úr 15 framhaldskólum og í hópi þeirra eru 13 dúxar og semidúxar. Styrkupphæð hvers og eins nemur 375 þúsund krónum og heildarupphæð styrkjanna er því rúmar 11,6 milljónir króna.“

Frétt um styrkveitinguna á vef HÍ