Fara í efni
Mannlíf

FH sigraði Þór/KA á Þórsvelli – MYNDIR

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir leikmaður Þórs/KA á fullri ferð með boltann í kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 0:2 gegn FH á Þórsvelli nú í kvöld. Leikurinn var lokaleikurinn í sjöttu umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu. Þór/KA liðið hefur nú tapað þremur leikjum í röð, og er eftir leikinn í fimmta sæti deildarinnar með 9 stig.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna
_ _ _

ÞÓR/KA BYRJAÐI AF KRAFTI
Heimakonur byrjuðu leikinn mun betur en lið FH sem var fyrir leikinn í næst neðsta sæti deildarinnar. Strax í upphafi leiks fékk Þór/KA liðið gott tækifæri til að komast yfir. Karen María Sigurgeirsdóttir fékk gott færi eftir hornspyrnu á 10. mínútu en skot hennar yfir. Smátt og smátt vann FH-liðið sig inn í leikinn og Þór/KA liðið lenti í vandræðum með að skapa sér færi.

_ _ _

FH KEMST YFIR, GEGN GANGI LEIKSINS
Þegar 30 mínútur voru liðnar af leiknum kom fyrsta markið, nokkuð gegn gangi leiksins. Mackenzie George fékk þá boltann við vítateiginn vinstra megin. Hún keyrði inn í teiginn og átti gott skot sem small í stönginni. Boltinn hrökk út í teiginn þar sem Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir var fyrst að átta sig, náði til boltans og skoraði með góðu skoti á lofti. Svekkjandi fyrir Þór/KA liðið en fram að þessu hafði FH varla skapað sér eitt einasta færi.

_ _ _ 

BESTA FÆRI ÞÓRS/KA Í SEINNI HÁLFLEIK
Staðan var 1:0 þegar flautað var til hálfleiks og var seinni hálfleikurinn virkilega bragðdaufur. FH liðið hélt sig aftarlega á vellinum, sátt við forystuna og tilbúið að beita skyndisóknum. Sóknarleikur Þórs/KA gekk afar illa, mikið var um misheppnaðar sendingar og lítið um að liðið næði að opna vörn FH. Þór/KA fékk þó ágætis séns til að jafna á 70. mínútu leiksins. Hulda Ósk fékk þá langa sendingu inn fyrir og var kominn inn í teiginn en náði ekki að taka á móti boltanum almennilega og hann var að lokum hirtur af henni. Þetta var eitt besta færi Þórs/KA í seinni hálfleik sem gefur ágætis mynd af því hversu illa liðinu gekk að skapa færi.

_ _ _

STANGARSKOT SHAINA ASHOURI
FH-ingar voru nálægt því að bæta við öðru marki á 75. mínútu leiksins. Sara Montoro keyrði þá inn á teiginn og lagði boltann út, þar var Shaina Ashouri sem átti skot í stöngina. Á þessum tímapunkti var það FH liðið sem var líklegra að bæta við marki.

Shaina Faiena Ashouri, til vinstri, og Karen María Sigurgeirsdóttir léku saman með Þór/KA sumarið 2021. 

_ _ _

SARA MONTORO GULLTRYGGIR SIGUR FH
Sara Montoro gulltryggði sigur FH á 89. mínútu leiksins. Leikmenn Þórs/KA höfðu þá sett meiri kraft í sóknina og voru fáliðaðir til baka. Shaina Ashouri gerði þá vel, vann boltann framarlega á vellinum og kom boltanum inn fyrir vörn Þórs/KA. Þar kom Sara Montoro á ferðinni, tók boltann með sér inn í teig og renndi boltanum á milli fóta Melissu í markinu.