Fara í efni
Mannlíf

Ferðast til Texas á sófanum í Hrafnagilsstræti

Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Þessa dagana er ég bara að vinna í því að taka upp nýja plötu, eða kannski tvær,“ segir Rúnar Eff, sem situr í köflóttri skyrtu í sófanum heima hjá sér. Þetta er ekki bara einhver sófi, heldur uppáhalds staður Rúnars til þess að semja lög. Hér sest hann gjarnan með gítarinn sinn, byrjar að leika við strengina og búa til melódíur. „Eiginlega kemur þetta bara til mín, einhvernveginn. Kannski ein lína af texta, sem ég syng kannski tuttugu sinnum, aftur og aftur. Svo kemur bara lagið. Mishratt!“ Rúnar segist semja tónlist um sitt eigið líf. Bæði það góða og það slæma sem á daga hans hefur drifið.

Stökk í djúpu laugina með plötuútgáfu

Rúnar Freyr Rúnarsson tónlistarmaður býr við Hrafnagilsstræti á Akureyri. Hann á tvö börn, 15 og 20 ára og er fráskilinn. Hann kastaði sér fram á sjónarsviðið í tónlistarheiminum árið 2008 með því að gefa út plötu, algjörlega óreyndur sem tónlistarmaður. „Þegar ég hélt útgáfutónleika fyrir þessa plötu, var ég rauninni að stíga í fyrsta skipti á svið með hljómsveit,“ segir Rúnar, en hann hafði setið heima og samið tónlist, einn með sjálfum sér um tíma. Eftir að fara í söngskóla í Kaupmannahöfn í kjölfarið á plötuútgáfunni, varð ekki aftur snúið. „Í dag er þetta bara lifibrauðið mitt. Ég spila eða skemmti næstum því hverja helgi og það er nóg að gera,“ segir Rúnar.

Hokkíið er bara eins og ein stór fjölskylda.

Rúnar Eff þjálfaði kvenna- og karlalið Skautafélags Akureyrar sem bæði urðu Íslandsmeistarar vorið 2021 og fékk hefðbundna „sturtu“ úti á svellinu í eftir að Íslandsbikararnir fóru á loft í Skautahöllinni á Akureyri. Konurnar buðu upp á nettari vatnsbunu þetta árið, því fatan fannst ekki þegar hennar var þörf, en karlarnir buðu upp á hressileg tilþrif! Neðri myndirnar eru teknar eftir karlaleikinn. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Hættur að þjálfa íshokkí

Tónlistin tekur mikinn tíma, en Rúnar vinnur líka fyrir Akureyrarbæ. „Ég er að vinna með fatlaðan strák, algjöra perlu sem ég er búinn að fylgja núna í næstum því sjö ár,“ segir Rúnar. „Þetta er eiginlega ekkert vinna. Meira vinskapur sem ég fæ borgað fyrir.“ Rúnar hefur einnig verið áberandi í íshokkíinu á Akureyri um árabil, fyrst sem leikmaður og síðan þjálfari. Í haust ákvað hann að láta staðar numið í þjálfuninni, en hann er þó alltaf á kantinum. „Hokkíið er bara eins og ein stór fjölskylda,“ segir Rúnar brosandi. „Ég er búinn að vera í þessu í 33 ár og nóg komið, allavegana í bili.“ Börnin hans tvö eru bæði á fullu í íshokkí og alveg ljóst að Rúnar er langt í frá hættur að mæta í Skautahöllina, enda einn af hans uppáhaldsstöðum og annað heimili.

Ég fékk fyrsta gítarinn minn þegar ég var tólf ára og ég ætlaði að verða þungarokkari

Erfið unglingsár

Rúnar var 12 ára þegar hann byrjaði að æfa íshokkí. „Það bjargaði mér eiginlega á unglingsárunum, að vera í hokkí. Ég er með tourette og var mjög slæmur þá, lenti í stríðni og endaði á því að skipta um skóla. Flutti úr skóla í bænum og inn á Hrafnagil,“ rifjar Rúnar upp. „Þrátt fyrir allt átti ég alltaf samastað í hokkíinu og það hefur alltaf verið svo gott utanumhald í skautafélaginu.“ Rúnar segir að sjúkdómurinn hafi minnkað mikið með árunum og hái honum ekki í tónlistinni. „Ég hef líka nýtt þessa reynslu til þess að semja tónlist, ég hef samið lög um þetta og það er kannski bara málið - ég reyni alltaf að búa eitthvað til úr því sem ég upplifi og geng í gegnum.“

Rúnar og hin hefðbundna hljómsveit hans; Stefán Gunnarsson, Valgarður Óli Ómarsson og Hallgrímur Jónas Ómarsson.

Datt óvart í kántrígírinn

„Eldri bróðir minn var í þungarokkshljómsveit þegar ég var krakki,“ segir Rúnar. „Mér fannst hann hrikalega töff. Ég fékk fyrsta gítarinn minn þegar ég var tólf ára og ég ætlaði líka að verða þungarokkari.“ Eins og margir, þá byrjaði Rúnar rokkstjörnu-bernskubrekin í bílskúrsbandi, sem var reyndar ekki til lengi. „Ég hlustaði mikið á þungarokk, en svo er staðreyndin sú að ég er ofboðslega mikil alæta á tónlist,“ segir Rúnar, en hann segist alltaf hafa verið veikur fyrir Elvis og Lionel Ritchie sem dæmi. Kántríið hefur svo átt afgerandi innrás í líf Rúnars á seinni árum og platan sem hann er að taka upp um þessar mundir er í miklum kántrígír. „Ég man eftir því, þegar ég bjó í Kanada og var að spila hokkí þar, að ég fílaði alls ekki kántrí,“ segir Rúnar. Seinna, þegar hann var í söngnámi í Köben, samdi hann lag með sænskum skólabróður og það var alveg óvart kántrílag. „Eftir það, þá er svona kántrí-slikja á öllu sem ég geri!“

Í þessu kántrí-poppi eru bara svona lykilorð sem þú þarft að koma að í textanum. Bjór, viskí, pikköpp bíll og fyrrverandi kona. Ég er ekkert mjög hrifinn af því.

Persónulegar lagasmíðar

„Það er tvenns konar textagerð í gangi í kántríinu í dag,“ segir Rúnar. „Í þessu kántrí-poppi eru bara svona lykilorð sem þú þarft að koma að í textanum. Bjór, viskí, pikköpp bíll og fyrrverandi kona. Ég er ekkert mjög hrifinn af því.“ Rúnar er meira fyrir persónulegri textagerð og hann segir að langflestir textarnir sínir séu um upplifanir, atburði eða tilfinningar úr eigin lífi. „Önnur platan mín kom út eftir skilnað við barnsmóður mína og hún varð til mjög hratt, ég nota eiginlega lagasmíðarnar til þess að koma tilfinningunum út og þarna var af nógu að taka.“

Rúnar á sviðinu á Græna hattinum. Kúrekahatturinn og skyrtan tóna vel við kántríhljóminn. Mynd úr safni Rúnars 

Tilnefning til verðlauna á tónlistarhátíð í Texas

Eftir að Rúnar hlóð nokkrum lögum upp á streymisveituna ‘Reverb nation’, sem er mikið notuð í Bandaríkjunum, fór hann að fá undarlega tölvupósta. „Þetta var frá ‘Texas Sound International Country music Awards’ sem ég hélt að væri bara eitthvað spam og eyddi án þess að lesa það einu sinni,“ segir Rúnar. Eftir þrjá pósta í viðbót frá sama sendanda, opnaði hann póstinn og las yfir. „Þar stóð að ég væri tilnefndur til einhverra verðlauna á lítilli tónlistarhátíð í Texas og mér fannst þetta eiginlega bara fyndið. Ég tók þessu ekki alvarlega, en tók eftir nafninu neðst í tölvupóstinum. Þegar sami aðili sendi mér síðan vinabeiðni á Facebook, fóru hjólin að rúlla.“ Það kom í ljós að hátíðin var ekkert grín, þarna var fólk að leita uppi kántrítónlist víðs vegar að úr heiminum og þau höfðu heyrt lögin hans Rúnars á ‘Reverb nation’.

Það er eiginlega ekkert skemmtilegra en að stoppa í smábæjum í Texas. Hitta fólkið sem býr þarna, kannski bara að rölta í kjörbúðina í smekkbuxunum sínum.

Það var mikið ævintýri fyrir Rúnar og hljómsveitina hans að taka þátt í tónlistarhátíðinni. „Þetta er þriggja daga tónlistarveisla, þar sem allir fá hálftíma til þess að spila fyrir hátíðargesti. Síðasta kvöldið er svo verðlaunaafhending og þarna unnum við verðlaun sem besta hljómsveitin og ég fékk verðlaun sem besti karlkyns söngvarinn,“ segir Rúnar. Síðan hefur hann farið tvisvar í viðbót á hátíðina og alltaf unnið til verðlauna. „Það er eiginlega ekkert skemmtilegra en að stoppa í smábæjum í Texas. Hitta fólkið sem býr þarna, kannski bara að rölta í kjörbúðina í smekkbuxunum sínum.“

Rúnar á hátíðinni í Texas árið 2018 þar sem Vignir Snær Vigfússon og Steini Bjarka spiluðu með honum. Mynd úr einkasafni Rúnars. 

Byssur, viskí og rökræður við heimamenn

Rúnar rifjar upp sögu af því þegar hann komst í tæri við skotvopn, sem er kannski ekkert alltof óalgengt á þessum slóðum. „Við vorum á barnum eftir síðasta kvöldið og ég var kannski búinn að fá mér aðeins of mikinn bjór. Ég sé mann sitja við barinn með stóra skammbyssu á sér, utan klæða. Ég er ekkert alltof hrifinn af þessari byssulöggjöf þarna og fannst góð hugmynd á þessari stundu að fara og ræða málin við þennan mann. Sem betur fer var hann mjög næs og kurteis, þrátt fyrir að gefa lítið fyrir athugasemdir mínar um byssuna. Hann pantaði bara tvö glös af viskí og við ræddum málin. Daginn eftir þóttist ég hafa náð að sannfæra hann, en strákarnir í hljómsveitinni gátu leiðrétt það og minnt mig á að eiginlega hefði ég verið orðinn sammála karlinum í einu og öllu og meira að segja látið taka af mér mynd með byssuna!“

Ég er ekkert alltof hrifinn af þessari byssulöggjöf þarna og fannst góð hugmynd á þessari stundu að fara og ræða málin við þennan mann.

Fyrsta lagið af nýrri plötu komið út

Rúnar er búinn að gefa út fyrsta lagið af nýju plötunni, en það er einmitt um ferðalagið til Texas og heitir einfaldlega ‘Texas bound’. Það er vel rokkað kántrílag sem gefur góð fyrirheit um plötuna sem er í vændum frá Rúnari. Á ísköldum, íslenskum vetri er ekki vitlaust að leyfa huganum að reika til Texas í brennandi sól á breiðum, skínandi þjóðvegi. „Ég er með svolítið ólíka tónlist í vinnslu núna, bæði þessa rokkuðu kántrítónlist og svo rólegra stöff sem mig langar svolítið að hafa á sitthvorri plötunni. Þannig að kannski verða þetta bara tvær plötur!“ Rúnar segist semja tónlist í hollum, það er að segja, að stundum gengur ekki neitt - en svo kemur tími þar sem það vellur út allskonar tónlist og hann situr við að semja langt fram á nætur.

„Núna er eitthvað rosalega mikið að gerast í hausnum á mér, ég er með línur í höfðinu sem ég er að vinna með,“ segir Rúnar. Hann grípur gítarinn og fer að raula línu um það þegar hausinn og hjartað er ekki sammála. Það er merkilegt að geta nýtt svona tónlistina til þess að takast á við hugsanir og tilfinningar sem sækja að, en það virðist koma mjög náttúrulega hjá Rúnari.