Fara í efni
Mannlíf

Ferðafélagið: „Á fjöllum er klukkan ekki neitt“

Rakel Hinriksdóttir, blaðamaður Akureyri.net, skáld og listakona segir í kvöld, á opnu húsi hjá Ferðafélagi Akureyrar, frá dvöl sinni sem skálavörður í Drekagili við Öskju síðasta sumar.
 
„Pistlar hennar, Drekadagbókin, sem hún birti á Akureyri.net vöktu athygli, en þar er sagt frá upplifun hennar af lífinu á fjöllum, í bland við hugleiðingar um tíma og tilveru, náttúruna og manninn,“ segir í tilkynningu frá Ferðafélaginu. 
 
„Ég var ekki búin að vera lengi í Drekagili þegar mér fór að standa á sama um jafn mikið lítilræði og tímasetningu. Engu skipti hvaða dagur var, og því síður hvað klukkan sló. Klukkan var eitthvað og það var dagur á hverjum degi,“ segir í tilkynningunni og er tilvitnun í gutdys pistil Rakelar.
 
Samkoman hefst kl. 20 í kvöld í húsnæði FFA við Strandgötu 23. „Kaffi og konfekt, spjall og spurningar. Fjölmennið meðan húsrúm leyfir. Allir velkomnir,“ segir í tilkynningunni.