Fara í efni
Mannlíf

Fegursta kirkjustæði hérlendis og erlendis

Akureyrarkirkja í byggingu. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri/Hallgrímur Einarsson.

„Kirkjustæðið á Akureyri er hið fegursta, sem ég hefi séð, bæði hérlendis og erlendis. Kirkjan stendur á háhöfðanum og gnæfir yfir allan bæinn, og sést langt utan af Eyjafirði.”

Þessi ummæli eru ekki akureyrsk drýldni heldur úr lýsingu Akureyrarkirkju sem arkitekt hennar, Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, samdi vorið 1939. Staðsetning kirkjunnar er með öðrum orðum í heimsklassa að mati eins merkasta arkitekts Íslands. Margir þeirra myndasmiða sem beint hafa vélum sínum upp að kirkjunni taka undir með Guðjóni enda engin tilviljun að Akureyrarkirkja er í hópi vinsælustu fyrirsæta landsins. Hún hefur líka lengi verið helsta tákn Akureyrar. Það er ekki síst staðsetningunni að þakka þótt hönnun Guðjóns Samúelssonar á útliti kirkjunnar sé líka mjög vel heppnuð. Við vígslu kirkjunnar, sunnudaginn 17. nóvember árið 1940, gaf Guðjón sköpunarverki sínu þá einkunn að Akureyrarkirkja væri „langveglegasta og fegursta kirkjubygging sem reist hefur verið á Íslandi af lúterskum söfnuði“.

Sundurþykkja um val á lóð

Þetta rifjum við upp nú þegar við fögnum 80 ára vígsluafmæli Akureyrarkirkju hinnar nýrri.

Þó var staðarval hennar ekki óumdeilt enda Akureyringar engir eftirbátar annarra í því að takast á um hvar eigi að setja niður hin ýmsu mannvirki. Það gerðist þegar forveri kirkjunnar á Grófargilshöfða, Akureyrarkirkja hin eldri, var byggð. Jón Hjaltason, höfundur Sögu Akureyrar, segir í verki sínu að árið 1849 hafi íbúar höndlunarstaðarins við Pollinn sent konungi sínum bænaskjal þar sem þeir fóru fram á að mega byggja sér kirkju. Þá bjuggu 160 manns á Akureyri og veittu 60 af þeim skjalinu undirskrift sína. Það dugði ekki til en eftir tveggja ára uppstyttulitlar ítrekanir og þrábeiðnir mýktist hjarta hins háa herra og leyfi var veitt með skilyrðum, meðal annars því að íbúarnir kostuðu bæði bygginguna og rekstur hennar. Þó var í hinu upprunalega skjali tekið fram í að á Akureyri byggju miklu fleiri „snauðir en fjáðir“.

Að þessum sigri unnum skyldi maður ætla, að bæjarbúar létu ekkert tefja sig í því að láta drauminn rætast, græfu grunn og útveguðu timbur enda höfðu þeir þá þegar safnað heilum 700 ríkisdölum til verksins. Virtist stefna í órofa samstöðu þegar flestallir bæjarbúar mættu á fund í ágústlok 1851 til að ákveða næstu skref í kirkjubyggingarmálinu.

En skjótt skipast veður í lofti eins og Jón greinir frá í 1. bindi Akureyrarsögu sinnar:

„Skyndilega gaus upp mikil sundurþykkja um val á lóð undir kirkjuna og vildu sumir til fjalls en aðrir til fjöru í bókstaflegum skilningi þeirra orða.“

Akureyringar, sem stóðu með pálmann í höndunum í þessu máli, gátu ekki komið sér saman um hvar þeir ættu að reisa sitt langþráða guðshús. Sumir sáu kirkjuna fyrir sér á brekkubrúninni ofan kaupstaðarins en aðrir vildu velja henni stað í byggðinni í Fjörunni. Stefndi í að íbúarnir byggðu sér tvær kirkjur því báðar fylkingarnar hófust handa við að flytja grjót í undirstöður þangað sem þær hugðust taka til við framkvæmdir. Um tíma voru tvær grjóthrúgur, önnur uppi á höfða, hin niðri í fjöru, birtingarmyndir þessa sundurlyndis sem trúlega var helsta orsök þess, að rúmur áratugur leið frá því að Akureyringum tókst að fá leyfi konungs til að byggja kirkju þangað til loksins var byrjað að reisa helgidóm í Fjörunni vorið 1862. Barátta bæjarbúa við sig sjálfa hafði reynst langvinnari og erfiðari en við yfirvaldið úti í Kaupmannahöfn.

Ályktun um kirkjustæðið fékk misjafnar undirtektir

Ekki gekk heldur þrautalaust að velja nýrri Akureyrarkirkju stað. Fyrstu hugmyndirnar um hana komu fram þegar þrettán ár voru liðin af 20. öldinni. Árið 1925 var stofnaður sérstakur sjóður til verkefnisins eins og fram kemur í bók Sverris Pálssonar, Saga Akureyrarkirkju. Sú vandaða bók kom út á 50 ára afmæli kirkjunnar árið 1990. Ýmsar tillögur fæddust um staðsetningu nýrrar kirkju í vaxandi kaupstað. Snemma á öldinni vildu einhverjir reisa hana sunnan Búðarlækjar - sennilega ekki langt frá núverandi Höfðakapellu - og síðar var lagt til að nýtt guðshús Akureyringa stæði nálægt Samkomuhúsinu í svonefndri Barðslaut. Sumarið 1918 fundaði sóknarnefnd Akureyrarsóknar og ályktaði að heppilegasta kirkjustæðið væri „á höfðanum norðan við Stóruvelli“. Stóruvellir voru hús númer 4 við Eyrarlandsveg sem bárðdælsk hjón, Guðrún Jónsdóttir frá Bjarnastöðum og Albert Jónsson frá Stóruvöllum, byggðu árið 1902.

Þessi ályktun sóknarefndar fékk misjafnar undirtektir. Bæjarstjórnin gat ekki fallist á tillöguna og bar því við að kirkja á Grófargilshöfða torveldaði vega- og hafnargerð á mikilvægu athafnsvæði í miðbænum. Næstu árin var tekist á um hvar væri hentugast að byggja nýja kirkju. Sóknarnefndin vildi hafa hana á höfðanum en bæjarstjórnin sá alla annmarka á þeirri staðsetningu. Sá ágreiningur var til lykta leiddur með bókun bæjarstjórnar Akureyrar 16. nóvember árið 1926 þar sem samþykkt var að „kirkjan skuli standa fyrir austan reit nr. 26, á höfðanum norðan við Stóruvelli, og þannig austan Eyrarlandsvegar“.

Grófu fyrir nýrri kirkju með höndunum

Enn voru þó mörg ljón á veginum. Ekki var búið að teikna nýja kirkju og peningar til verksins voru heldur ekki til. Mörg ár liðu.

Laugardagsmorguninn 3. september árið 1938 sást til ferða sex ungra manna uppi á brún Grófargilshöfðans. Þeir höfðu fengið lánaða haka, skóflur og hjólbörur til verks sem þeir höfðu tekið að sér: að grafa með eigin höndum fyrir nýrri kirkju á Akureyri. Þessir ungu upphafsmenn framkvæmda við Akureyrarkirkju voru Stefán Reykjalín, síðar byggingameistari á Akureyri, Svavar Jóhannsson, lengi starfsmaður Rafveitu Akureyrar, Trausti Pétursson frá Ingvörum í Svarfaðardal, síðar prestur og prófastur á Djúpavogi, Þórður Valdemarsson frá Leifshúsum á Svalbarðsströnd, lengst af byggingaverkamaður á Akureyri, Björn Jónsson, síðar verkalýðsforingi, alþingismaður og ráðherra og góðvinur hans, Jóhannes Pálmason frá Kálfagerði í Eyjafirði. Jóhannes vígðist til prests í Akureyrarkirkju 17. maí árið 1942 og var um þriggja áratuga skeið prestur og síðar prófastur á Stað í Súgandafirði. Síðustu árin þjónaði sr. Jóhannes í Reykholti í Borgarfirði.

Jóhannes Snorrason flaug langlengst!

Stefán Reykjalín segir þannig frá þessum mokstri í Sögu Akureyrarkirkju:

„Við trilluðum öllum uppgreftrinum suður fyrir grunninn, og þar var hann notaður í uppfyllingu eða til að hækka landið umhverfis kirkjustæðið. Strákar af Suðurbrekkunni gerðu sér það að leik á kvöldin að hjóla allt hvað þeir máttu alla leið ofan frá Rósinborg niður allan Eyrarlandsveg og upp á snarbrattan uppfyllingarbakkann að sunnanverðu, þar sem þeir tókust á loft og svifu svo á reiðhjólunum mislangt norður yfir moldarflagið. Mér er ekki grunlaust um, að sumir hafi farið þar flatir, sérstaklega í rigningatíð, og komið heim misjafnlega til reika, en hitt fór ekki milli mála, að Jóhannes Snorrason, síðar yfirflugstjóri, átti þarna langlengsta flugið.“

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, skrifar að beiðni Akureyri.net, í tilefni 80 ára vígsluafmælis kirkjunnar á þriðjudaginn kemur. Meira birtist eftir helgi.