Fara í efni
Mannlíf

Fánadagur Liverpool klúbbsins á Akureyri

Fánadagur Liverpool klúbbsins á Íslandi verður haldinn á Akureyri á morgun, laugardag. Þá tekur Rauði herinn á móti liði Burnley í ensku úrvaldeildinni í knattspyrnu kl. 15.00.

Stuðningsmenn Liverpool ætla koma saman á Ölstofunni í Gilinu og vonast Pálmi Ólafur Theódórsson, varaformaður klúbbsins, til þess að sjá sem flesta.

„Liverpoolklúbburinn á Íslandi fagnar 30 ára afmæli í ár og höfum við sjaldan eða aldrei verið með jafnmarga meðlimi eða um 3.300,“ segir Pálmi Ólafur við Akureyri.net. „Við erum afskaplega stolt af klúbbnum okkar sem er annar tveggja fjölmennustu stuðningsmannaklúbba í Evrópu sem mega kalla sig opinberan stuðningsmannaklúbb Liverpool.“
 
Klúbburinn hefur haldið svokallaðan fánadag víðsvegar um landið undanfarin tæp tvö ár, til dæmis í Reykjavík, á Selfossi, í Reykjanesbæ og Stykkishólmi svo eitthvað sé nefnt.