Fara í efni
Mannlíf

Fagnið, yngri borgarar og aðrir snjóþotuvinir!

Myndir af Facebook síðu Skógræktarfélags Eyfirðinga

Langþráður draumur húsbænda í Kjarnaskógi – og yngstu kynslóðar Akureyringa – er að rætast! Um helgina var brekkan langa á Kjarnatúni, ofan bílastæðisins við Kjarnakot, mótuð með snjóþotuferðir framtíðarinnar í huga. Því er ekki eftir neinu að bíða, nema því að veðurfræðingar landsins útvegi snjó.

Jón Bergur ýtustjóri mætti um helgina og mótaði nýja sleðabrekku á Kjarnatúni, segir á Facebook síðu Skógræktarfélags Eyfirðinga.

„Yngri borgarar Akureyrar hafa ákaft kallað eftir því að sú sjálfsagða lýðheilsuósk sé uppfyllt og óska sér eflaust margir hverjir snjóþotu í jólagjöf,“ segir þar.

„Vetrarblíðuna þarf jú að nýta til góðra verka, tilkoma nýja snjótroðarans og fyrrgreind landmótun gerir okkur vonandi kleift að halda úti sleðabrekku í skógarskjóli vetrarlangt þótt snjóalög séu í lágmarki, svæðið tengist einnig nýju leiksvæði á Kjarnavelli (kanínuleiksvæðinu) og nýtist þannig vetur og sumar, m.a. til samkomuhalds, hjólaþrautaiðkunar o.s.frv.“ segir á síðu Skógræktarfélagsins.