Fagna tvítugsafmæli Stangveiðifélagsins
Stangveiðifélag Akureyrar (SVAK) er 20 ára um þessar mundir og verður tímamótunum fagnað með fræðslu- og afmælisfundi á Hótel KEA í dag, laugardaginn 4. nóvember frá klukkan 14.00 til 18.00.
Á fundinum mun Guðni Guðbergsson sviðstjóri hjá ferskvatns- og eldissviði Hafrannsóknarstofnunar, m.a. fjalla um stöðu bleikju-, sjóbirtings- og laxastofna, og slysasleppingar á sjókvíaeldislaxi og afleiðingar þeirra og tilveru hnúðlax í ám. Þá munu Sigmundur Ófeigsson og Stefán Sigmundsson vera með fyrirlestur um stöðu og þróun bleikjuveiða í ám við Eyjafjörðinn.
„Stangveiðifélag Akureyrar stendur ennþá styrkum fótum og hefur að aðalmarkmiði sínu að halda uppi öflugu félagsstarfi með opnum húsum, fræðslu um sportið, hnýtingarkvöldum og flugukastæfingum,“ segir Guðrún Una Jónsdóttir, formaður SVAK, í grein sem birtist á Akureyri.net í gær. Guðrún Una er þriðji formaður í sögu SVAK og varð fyrst kvenna til að gegna slíku embætti hérlendis.
Smellið hér til að lesa grein Guðrúnar Unu.