Færni og þekking til þróunarlanda
Háskólinn á Akureyri hefur verið virkur þátttakandi í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna frá upphafi hans árið 1998. Skólinn er nú nefndur Sjávarútvegsskóli GRÓ – eftir að hann var fluttur undir GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfar undir merkjum UNESCO, Mennta- vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Að þessu sinni dvelja hér á Akureyri 11 nemar frá 9 löndum til að sækja skólann, sem hýstur er í HA. Nemendurnir eru frá Síerra Leóne, Suður Afríku, Namibíu, Malaví, Seychelles-eyjum, Tansaníu, Kosta Ríka, Nýja Sjálandi og Papúa Nýju Gíneu.
Á næstu vikum mun Akureyri.net spjalla við alla þessa nemendur og forvitnast um hvernig nám við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri kemur til með að nýtast þegar þau snúa aftur heim.
„Þau eru að læra um hvernig á að stjórna fiskveiðum í mjög víðu samhengi, hvernig veiða má á sjálfbæran hátt, hvernig hafa má veiðarnar arðbærar og hvernig samfélagið getur haft sem mestan hag af,“ segir Hreiðar Þór Valtýsson, dósent við Auðlindadeild og umsjónarmaður Sjávarútvegsskólans, á heimasíðu HA
Hreiðar segir enn fremur: „Stundaskrá þeirra er mjög fjölbreytt en 18 starfsmenn HA leiðbeina og kenna hópnum. Einnig er mikið samstarf við Fiskistofu.“
Þróunarsamvinnumiðstöðin, sem skólinn er nú hluti af, heitir fullu nafni Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu og er sjálfstæð miðstöð um uppbyggingu færni og þekkingar í þróunarlöndunum, eins og kemur fram á heimasíðu Hafrannsóknarstofnunar. Hún er byggð á grunni Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna sem stofnaður var árið 1998, eins og áður segir, með þríhliða samkomulagi milli Háskóla sameinuðu þjóðanna (nú GRÓ), Utanríkisráðuneytis og Hafrannsóknarstofnunar.
Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna er mikilvægur líður í alþjóðasamstarfi, eins og sést berlega þegar rætt er við þá nemendur sem námið stunda, og eflir tengslanet Háskólans á Akureyri um heim allan.
- Carolyn Chinguo Munthali: Malaví er kalla Hið hlýja hjarta Afríku
Nemendahópurinn ásamt leiðbeinendum sínum. Ljósmynd: Hörður Sævaldsson.