Fara í efni
Mannlíf

Færðu fæðingadeildinni eina og hálfa milljón

Frá afhendingu á fæðingadeild SAk í dag. Sigríður Ásta Pedersen, Ingibjörg Jónsdóttir, deildarstjóri fæðingadeildarinnar, Bryndís Björk Hauksdóttir, Linda Skarphéðinsdóttir, ein af þeim sem unnu að verkefninu, og Björk Jómundsdóttir ljósmóðir. Fyrir framan eru Þrymir Dreki Þórðarsson og Hafþór Friðrik Pedersen. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Bryndís Björk Hauksdóttir og Sigríður Ásta Pedersen tóku að sér að sjá um góðgerðarverkefnið Mömmur og möffins sem hefur fest sig í sessi á Akureyri um verslunarmannahelgina. Verkefnið gekk glymrandi vel eins og Akureyri.net hefur áður greint frá. Allt seldist og í dag voru þær vinkonurnar mættar ásamt fleiri sjálfboðaliðum við verkefnið upp á fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri til að afhenda afraksturinn.

Upphæðin er sú hæsta sem Mömmur og möffins hefur gefið af sér hingað til. Ágóðinn varð á endanum 1.569.861 króna sem fæðingadeildin fær til ráðstöfunar. Þar á bæ hefur ekki verið ákveðið endanlega í hvaða verkefni þetta fé mun renna, en allar slíkar gjafir eru nýttar til að kaupa búnað og/eða bæta aðstöðu fyrir skjólstæðinga deildarinnar.


Bollakökur um allt Ráðhústorg. Allt seldist á um það bil tveimur tímum. Mynd: Hilmar Friðjónsson.
 

Þær Sigríður Ásta og Bryndís Björk hafa verið vinkonur lengi og ástæðan fyrir því að þær tóku þetta að sér er einföld. Það vantaði fólk til að taka við verkefninu og ekki beinlínis slegist um það. Þær vildu alls ekki að verkefnið dytti upp fyrir og tóku það því að sér.

Málstaðurinn er enda góður og þegar þær tóku við og fóru í gang með undirbúning gekk vel að fá fyrirtæki til liðs við verkefnið. Það er nefnilega meira en að segja það að hrista 2.262 fagurlega skreyttar bollakökur fram úr erminni. Það þarf hráefni, búnað og aðstöðu og ekki síst fólk með í liðið til að allt gangi smurt fyrir sig. Alls komu 20 manns að verkefninu, þar af sjö börn sem létu ekki sitt eftir liggja.


Sigríður Ásta Pedersen og Bryndís Björk Hauksdóttir, aðalkonurnar í Mömmum og möffins, mættar fyrir utan Sjúkrahúsið á Akureyri með blómvönd, konfekt og skjal til staðfestingar á styrk til fæðingadeildarinnar. Mynd: Haraldur Ingólfsson.


Meðal þeirra sem unnu að verkefninu á löngum vöktum, að því er þeim sjálfum fannst, voru Þrymir Dreki, sonur Bryndísar, og Hafþór Friðrik, sonur Sigríðar. Þeir voru mættir með mæðrum sínum á fæðingadeildina og afhentu Ingibjörgu Jónsdóttur deildastjóra blómvönd og konfekt ásamt skjali með staðfestingu á styrkupphæðinni.
 

Það var líf og fjör í miðbænum á laugardaginn um verslunarmannahelgina, en þetta er í fyrsta skipti sem Mömmur og möffins staðsetja sig á Ráðhústorginu því hingað til hefur salan farið fram í Lystigarðinum. Það vildi líka svo skemmtilega til að skemmtiferðaskip lá við festar og segja þær Bryndís og Sigríður að þónokkuð af sölunni hafi verið til erlendra ferðamanna, sem fannst auðvitað sjálfsagt að gæða sér á bollakökum og kaffi, ekki síst þegar þeir vissu hver málstaðurinn var.


Mögulega var úrvalið af bollakökunum svo mikið að valkvíði hafi gert við sig hjá einhverjum. Mynd: Hilmar Friðjónsson.


Ekki lenda þyrlu hér. Mynd: Hilmar Friðjónsson.