Fara í efni
Mannlíf

Eyþór Tómasson í Lindu kominn á Iðnaðarsafnið

Valur, til vinstri, og Viðar Eyþórssynir með málverk Örlygs Sigurðssonar af föður þeirra.

Iðnaðarsafninu á Akureyri barst nýlega málverk af athafnamanninum Eyþóri Tómassyni, stofnanda súkkulaðiverksmiðjunnar Lindu. Það voru synir Eyþórs, þeir Valur og Viðar, sem afhentu safninu málverkið að gjöf.

„Málverkið málaði Örlygur Sigurðsson listmálari og er það 80 cm x 110 cm stórt. Eyþór Helgi Tómasson var fæddur 16.12. árið 1906 og lést þann 29.11 árið 1988. Eyþór stofnaði súkkulaðiverksmiðjuna Lindu árið 1945 hér á Akureyri og var hann lengst af framkvæmdastjóri þar. Linda framleiddi margar gerðir af súkkulaði og ískexi m.a, sælgæti sem fyrir löngu er og hefur greypt sig í hjörtu þjóðarinnar og Lindukonfektið var ómissandi hluti jólahalds landsmanna. Einnig er vert að nefna Lindubuffin sem öll íslenska þjóðin elskaði og elskar enn undir vörumerkinu Góa – Linda,“ segir á Facebook síðu Iðnaðarsafnsins.

„Linda var stór vinnustaður hér á Akureyri á sinni tíð og þegar mest var störfuðu tæplega 50 manns hjá fyrirtækinu. Linda var svo sannarlega glæsilegt iðnfyrirtæki hér í bæ og því ákaflega ánægjulegt að geta nú sýnt hér á safninu almenningi þetta glæsilega málverk af stofnanda fyrirtækisins.

Í Iðnaðarsafninu á Akureyri er framleiðslu Lindu gerð góð skil í sýningarsal safnsins og sjón er sögu ríkari. Nú munum við staðsetja þessa glæsilegu gjöf, málverkið af stofnandanum, Eyþóri Tómassyni og þar mun hann halda áfram að halda vöku sinni yfir framleiðslunni í Lindu í anda þess sem hann gerði hér fyrrum.“