Eyrnamergur og þjóðfélagsumræða
Séra Svavar Alfreð Jónsson vaknaði einn bjartan frostmorgun fyrir stuttu nánast heyrnarlaus með hnausþykka hellu fyrir eyrum. Um kvöldið mætti hann á æfingu með félögum sínum í Karlakór Akureyrar.
Verkefni dagsins urðu kveikjan að vangaveltum Svavars sem lesa má í mjög umhugsunarverðum og skemmtilegum pistli sem birtist á Akureyri.net í kvöld.
„Raddir okkar mannfólksins eru ólíkar, misháar, miskröftugar, sumar þéttar og þýðar, aðrar grófari og garralegri. Kór er fjölhljómur ólíkra radda. Og þannig er samfélagið. Hljómur þess er búinn til úr samspili fjölbreytilegra radda. Vilji maður tilheyra samfélagi, vilji maður ekki vera aleinn í heiminum, þarf maður bæði að hlusta á þessar ólíku raddir og gefa rödd sína í þann fjölhljóm,“ segir Svavar.
„Fari þjóðfélagsumræðan einkum fram í notalegheitum bergmálshellisins í félagsskap jábræðra og halelújasystra má efast um að það sé hollt fyrir mann sjálfan eða samfélagið. Óþolið gagnvart andstæðum sjónarmiðum eða skrýtnum skoðunum sem mér finnst sífellt meira áberandi gæti verið hættulegt mennskunni. Það er varasamt að heyra bara í sjálfum sér. Þá þrengist sjóndeildarhringurinn niður í einn punkt í miðjunni á manni sjálfum.“
Smellið hér til að lesa pistil séra Svavars Alfreðs