Eyfirski safnadagurinn sumardaginn fyrsta
Eyfirski safnadagurinn verður haldinn á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta. Þá er frítt inn á 15 söfn og setur á Eyjafjarðarsvæðinu allt frá Grenivík til Siglufjarðar; að Hrísey meðtaldri. Löngu er komin hefð fyrir því að söfnin á svæðinu opni dyr sínar á þessum degi og bjóði gestum að ganga í bæinn – án þess að greiða aðgangseyri fyrir.
Í upphafi hugsaður fyrir heimafólk
Steinunn María Sveinsdóttir, safnstjóri Flugsafns Íslands, sagði í samtali við Akureyri.net að í upphafi hafi Eyfirski safnadagurinn verið hugsaður til að laða að heimamenn og gefa þeim tækifæri til að skoða söfnin utan ferðamannatímans. En það tímabil hafi lengst og nú þegar væri mikið af ferðafólki á Eyjafjarðarsvæðinu. Allir séu velkomnir.
Steinunn María sagði enn fremur að söfnin tækju sífelldum breytingum. Munir eru teknir úr sýningu og settir í varðveislurými og aðrir settir fram, og því gaman fyrir gesti að kíkja í heimsókn og upplifa sífellt eitthvað nýtt.
„Ekki bara fyrir ferðamenn“
Steinunn María bætir við að orðspor safnanna sé gott og mikilvægt að því orðspori sé haldið við – meðal annars með því að hafa frían aðgang á sumardaginn fyrsta svo að sem flestir hafi tækifæri til að kynnast þeim og njóta þess sem þau hafa upp á að bjóða. „Söfn eru til fyrir almenning en ekki bara ferðamenn“, segir Steinunn María að lokum.