Fara í efni
Mannlíf

„Eurovision bíómyndin gæti verið um mig“

Ágúst Þór Brynjarsson, þáttakandi í Söngvakeppni sjónvarpsins. Mynd: RÚV

„Lagið okkar fjallar um þegar þér líður eins og þú hafir unnið í ástarlottóinu,“ segir Ágúst Þór Brynjarsson, þáttakandi í Söngvakeppni sjónvarpsins, um keppnislagið Eins og þú. „Þú bara trúir ekki að þú fáir að elska manneskjuna þér við hlið og þú vilt hvergi annarsstaðar vera.“ Ágúst er búsettur á Akureyri, en er upphaflega frá Húsavík. Hann samdi lagið sjálfur, með Akureyringnum Hákoni Guðna Hjartarsyni og fjallabróðurnum Halldóri Gunnari Pálssyni. 

  • Þrjú „Akureyrarlög“ taka þátt í Söngvakeppninni í ár; auk Eins og þú eru það Norðurljós, í flutningi BIU, og Þrá, sem Akureyringurinn Tinna Óðinsdóttir flytur og samdi ásamt Rob Price.
  • Akureyri.net fjallar sérstaklega um flytjendur laganna þriggja og hér er riðið á vaðið með spjalli við Ágúst Þór.
  • Ágúst og BIA keppa á fyrra undanúrslitakvöldinu næsta laugardagskvöld, 8. febrúar, en Tinna stígur á svið seinna kvöldið, þann 15. febrúar.

 

Eurovision alltaf verið stór partur af lífinu

Ágúst segir að hann hafi strax heyrt í Hákoni Guðna þegar opnað var fyrir innsendingar í Söngvakeppnina. „Við höfum verið að vinna saman í að semja tónlist og vorum þá báðir búsettir á Akureyri. Hann átti hugmynd að lagi í Eurovision-stíl sem við ákváðum að taka alla leið,“ segir Ágúst. Drengirnir fengu reynsluboltann og lagahöfundinn Halldór Gunnar Pálsson til liðs við sig. „Hann tók þetta klárlega á næsta stig og sigldi þessu heim með okkur,“ segir Ágúst spenntur, en hann segir að tilfinningin, þegar Rúnar Freyr Gíslason, framkvæmdastjóri keppninnar hafi hringt með góðu fréttirnar, hafi verið ólýsanleg.

Þessi bíómynd er rosalega lík minni æsku, ég var alltaf spilandi heima á bæjarbarnum og bæjarhátíðunum

„Ég og systkini mín, við erum alveg ruglaðir Eurovision aðdáendur,“ segir Ágúst. „Þetta var alltaf heilagur tími þegar ég var að alast upp. Ég lærði til dæmis serbneska sigurlagið árið 2007, Molitva, utan að og ég kann það ennþá, við erum með ártölin, sigurlögin og þetta helsta alveg allt á lás, svo það er bara heldur betur stór draumur að rætast.“ Ágúst segir að það sé frekar skondið, að bíómyndin fræga sem Will Ferrell gerði um Eurovision ævintýri ungs manns frá smábænum Húsavík á Íslandi, gæti alveg eins fjallað um sig. Myndin, The Story of Fire Saga, varð kveikjan að miklu fjölmiðlaævintýri Húsvíkinga, en þar er starfrækt Eurovision safn og á hverju ári ferðast aðdáendur keppninnar til bæjarins vegna þess.

 

Ágúst á sviði með Stuðlabandinu á síðasta ári. Mynd: Facebook 

„Þessi bíómynd er rosalega lík minni æsku, ég var alltaf spilandi heima á bæjarbarnum og bæjarhátíðunum, með stóra drauma um að gerast tónlistarmaður og söngvari,“ segir Ágúst, en hann er fæddur og uppalinn á Húsavík, og bjó þar til 18 ára aldurs. Síðasta ár tók svo ferill Ágústs stökk, en hann leysti af sem söngvari einnar vinsælustu ballhljómsveitar landsins, Stuðlabandsins, auk þess að koma fram með Færibandinu. Hann gaf svo út eigið lag, Með þig á heilanum, um haustið og fékk það töluverða spilun í útvarpi. Nú verður spennandi að sjá hvort að Söngvakeppnin verði einn einn stökkpallurinn fyrir þennan unga, norðlenska tónlistarmann.

„Næstu vikur og mánuðir vera rosalega skemmtilegir og spennandi,“ segir Ágúst að lokum. „Ég ætla gera mitt allra besta til að gera Húsvíkinga og Akureyringa, þar sem ég er búsettur nú, stolta af mér og svo vonandi allt Ísland.“

 

Myndband sem Ágúst hefur nýlega frumsýnt, við lagið sitt, Eins og þú, eða Like you, upp á enskuna: