Engir biðlistar á dag- og göngudeild geðdeildar

Engir biðlistar eru á dag- og göngudeild geðdeildar SAk í upphafi árs 2025. Það er mikilvægur og langþráður áfangi starfsfólksins, sem hefur séð margar jákvæðar breytingar á árinu sem leið. Í janúar á síðasta ári var staðan sú að það hafði verið lokað í mánuð vegna skorts á læknum og þörfum á endurbótum. Í dag er staðan allt önnur. Gestur Guðrúnarson og Ragnheiður Reykjalín Magnúsdóttir mynda stjórnendateymi dag- og göngudeildar geðdeildar SAk á Seli, en þau settust niður með blaðamanni Akureyri.net.
Staðan í dag segir meira en þúsund orð, um það hvernig umbótavinnan gekk
„Fyrir rúmu ári síðan var hérna mikill skortur á geðlæknum,“ segir Ragnheiður. „Það var líka komin mikil þreyta í starfsfólkið og fólk var að segja upp. Þegar við þurftum að loka í fyrra, var það bæði vegna manneklu og vegna þess hve mikil þörf var á umbótavinnu. Við fengum stjórnendaráðgjafa inn og þannig reynt að kortleggja hvað væri hægt að gera og hver vandamálin væru.“ Þar var grunnurinn lagður að vegferð starfseminnar á nýju ári, en staðan í dag segir meira en þúsund orð, um það hvernig umbótavinnan gekk.
Með samhentu átaki starfsfólks deildarinnar hefur miklum árangri verið náð. Ragnheiður og Gestur eru hér á mynd ásamt samstarfsfólki. F.v. Árný Berglind Hersteinsdóttir, Brynja Vignisdóttir, Gestur Guðrúnarson, Árni Jóhannesson og Ragnheiður Reykjalín Magnúsdóttir.
Biðtími eftir þjónustu gat verið upp í eitt og hálft ár
„Frá því að þurfa að loka, með 129 manns á biðlista eftir þjónustu og 635 manns skráða í þjónustu, skert flæði og mikið álag á starfsfólk,“ segir Ragnheiður, „yfir í engan biðlista og hæfilegra álag eða um 440 einstaklinga í þjónustu dag- og göngudeildar og 27 í þjónustu bráðaeftirfylgdar og bætt flæði má segja að vinnan hafi skilað góðum árangri. Það er ekki þar með sagt að það verði ekki aftur biðlisti, við viljum bara hafa vinnulagið þannig að brugðist sé við, það verði viðmið um biðtíma eftir þjónustu og flæði.“
Fólk var oft á tíðum að bíða í eitt og hálft ár eftir að fá að koma á Sel, en það er langur tími í lífi fólks sem glímir við geðrænan vanda. „Við viljum alls ekki sjá svona stöðu aftur, það verður að vera flæði í þjónustunni. Við höfum líka náð að taka á þessum innri biðlistum,“ bætir Ragnheiður við, en það var oft þannig að þó að skjólstæðingar væru komnir inn, þá þurfti oft að bíða eftir einhverjum sérhæfðum úrræðum innan þjónustunnar.
Dagþjónustan er með ákveðna dagskrá sem skjólstæðingar nýta eftir þörfum. Mjög mikilvægt er að vinna saman í hópum, en stór þáttur í því að takast á við geðrænan vanda er að rjúfa einangrun í hópi jafningja. Mynd: RH
Stjórnunarábyrgð færð til og létt af herðum læknanna
„Það er samt hellingur eftir að gera, og það eru mikil tækifæri,“ segir Ragnheiður. „En staðan er mjög góð. Meginþunginn í vinnunni sem við höfum verið í, er að móta þjónustuna og ráða nýtt starfsfólk. Við fengum aukið stöðugildi hjúkrunarfræðings og svo erum við komin með meiri tíma til þess að sinna stjórnun.“ Gestur Guðrúnarson er nýlega byrjaður að starfa á deildinni, og hann bætir við að það sé líka komið meira rými fyrir geðlæknana til þess að sinna sjúklingum, þegar annað starfsfólk hafi tíma í stjórnun.
„Áður, var forstöðulæknir í því að sinna stjórnun, samhliða því að sinna skjólstæðingum, sem er krefjandi,“ segir Gestur. „Það verður líka að segjast, að það er aukinn kraftur í samvinnu og þátttöku allra starfsmanna á deildinni. Starfsfólk hefur lagt sitt á vogarskálarnar í þessari þróunarvinnu, og brenna öll fyrir starfinu sínu og vilja sjá sem besta þjónustu í þágu samfélagsins. Áhersla var lögð á það, þegar farið var í að breyta verkferlum og laga til, að það væri gert í sameiningu.“
Dagsstofan á Seli er hugguleg. Þegar fer að vora verður svo hægt að nýta sér stóra verönd þarna rétt fyrir utan. Mynd: RH
Gestur er Akureyringur, en hann er nýkominn heim aftur úr Mosfellsbænum. Þar hafði hann verið að starfa í málefnum fatlaðs fólks. Hann er þó ekki glænýr hér í bæ, þar sem hann vann á Velferðarsviði Akureyrarbæjar. „Ég var ekki að labba hérna inn í fyrsta skipti, þegar ég byrjaði sem nýr starfsmaður í janúar,“ segir Gestur. „Ég hafði fylgt skjólstæðingum hingað áður. Það var mjög gott að koma heim, sérstaklega þegar maður hefur störf á svona stað þar sem metnaðurinn er mikill. Það er ótrúlega mikið búið að gerast á þessu ári.“
Metnaður fyrir því að halda áfram að bæta þjónustuna
Bæði Gestur og Ragnheiður ítreka að þó að það sé búið að ná þeim áfanga að eyða biðlistum og stokka upp til bætingar, sé alls ekki málið að leggja árar í bát og sigla lygnan sjó. „Nú tekur bara við að halda góðu gangandi og halda áfram að bæta þjónustuna,“ segir Gestur, og skýtur því inn að lokum, að þau séu alltaf með augun opin fyrir kraftmiklu starfsfólki til þess að bæta í hópinn.
Þetta var fyrri hlutinn af viðtalinu við Ragnheiði og Gest. Á morgun birtist sá seinni, en þá förum aðeins yfir það, sem er gert á Seli, og hvernig fólk nálgast það að fá hjálp þar. Einnig segja þau frá því sem er framundan, en það er ýmislegt spennandi í farvatninu.
Á MORGUN – FORDÓMAR HAMLA ENN Í GEÐHEILBRIGÐISMÁLUM