„Enginn veit hvað átt hefur ...“
Margmiðlunarsýningin Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur verður opnuð á þremur stöðum á Akureyri á morgun, laugardaginn 15. janúar klukkan 13.00.
Sýningin er samstarfsverkefni kvikmyndagerðarmannsins og sýningarstjórans Ólafs Sveinssonar, Landverndar og SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi.
Á sýningunni eru meira en 100 ljósmyndir, flestar í stærðinni A2 (42 x 60 cm) en einnig mjög stórar, 1,20 x 1,80 metrar að stærð, fjórar stuttar kvikmyndir, þar af þrjár sem Ólafur Sveinsson gerði sérstaklega fyrir sýninguna. „Þar er einnig að finna Náttúrukortið á stórum snertiskjá þar sem er m.a. hægt er að kynna sér hvernig virkjanaframkvæmdir hafa áhrif á náttúru, víðerni og landslag. Nátturukortið var nýlega uppfært og betrumbætt og er frumsýning þess á þessari sýningu,“ segir í tilkynningu um sýninguna.
Sýningin er svo stór að henni verður komið fyrir á þremur stöðum í bænum; í menningarhúsinu Hofi, á Amtsbókasafninu og í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi. Sýningin er opin alla daga á meðan viðkomandi hús eru opin.
- „Í Hofi verða 35 ljósmyndir af svæðum sem ýmist er búið að raska, eyðileggja myndu margir segja, með virkjunum eins og áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar eða eru í bið- eða orkunýtingarflokki Rammaáætlunar og því í hættu hvað mögulegar virkjanaframkvæmdir varðar,“ segir í tilkynningunni.
- Fjórar stuttar kvikmyndir, þar af þrjár sem sýningarstjórinn Ólafur Sveinsson gerði sérstaklega fyrir sýninguna og fjalla allar á mjög mismunandi hátt um Kárahnjúkavirkjun tilheyra eiginlega þessum hluta sýningarinnar, en þar sem ekki er hægt að sýna þær í Hofi, verða þær sýndar á stórum skjám í Amtsbókasafninu og á Glerártorgi.
- Í Amtsbókasafninu verða 43 ljósmyndir af dýrum sem lifa villt í náttúru Íslands og hafa heillað börn á öllum aldri þar sem sýningin hefur verið sett upp, eins og það er orðað í tilkynningu. „Eins og gefur að skilja eru fuglar þar í miklum meirihluta. Við hlið myndanna eru nöfn dýranna á mismunandi tungumálum auk frekari upplýsinga.“
- Á Glerártorgi verða rúmlega 40 ljósmyndir frá Norðurlandi. „Þær eru prentaðar í miklum gæðum, og voru sér valdar fyrir sýninguna hér á Akureyri. Sérstök áhersla er lögð á vetrarmyndir og fegurðina sem kaldasti tími ársins hefur uppá að bjóða í samræmi við tímasetningu sýningarinnar, en einnig eru myndir af sama staðnum sem sýna andstæðu sumars. Nánast allar myndirnar eru teknar af ljósmyndurum sem eru búsettir á Norðurlandi og sýningin sýnir hversu ástríðufullir og góðir ljósmyndararnir eru og hversu mikið þeir eru til í að leggja á sig til að ná góðum myndum.“
Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur er farandsýning sem fyrst var sett upp í Norræna húsinu og síðan í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og þar á eftir í Sláturhúsinu, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, á Egilsstöðum. Bæði á Ísafirði og Egilsstöðum var sýningin sett upp í samstarfi við náttúruverndarsamtök í landshlutunum líkt og nú er gert með SUNN, þar sem sérstök áhersla var lögð á að vera með ljósmyndir frá viðkomandi landshluta, svæðum sem þau leitast við að vernda og umfjöllun um það sem þau litu á sem sín mikilvægustu baráttumál í náttúruvernd heima í héraði.
Sýningin stendur til laugardagsins 26. febrúar.
Í lok febrúar er áformað, ef aðstæður leyfa, að halda opna fundi um náttúruvernd í tengslum við sýninguna og bjóða skólahópum að koma í heimsókn og fá leiðsögn um sýninguna og verkefni til að leysa.
Hluti sýningarinnar er á Amtsbókasafninu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.