„Engin fallegri gjöf til í veröldinni“
Eigendur Akureyrar apóteks, tvenn hjón - Gauti Einarsson og Hafdís Bjarnadóttir annars vegar, Jónína Freydís Jóhannesdóttir og Ingvi Þór Björnsson hins vegar - eru án efa nánari en gengur og gerist í fyrirtækjum. Þeir fögnuðu tíu ára afmæli apóteksins nýverið, eins og fram kom hér á vefnum í gær, en hið óvenjulega er að Gauti gaf Ingva Þór annað nýrað úr sér fyrir nokkrum misserum.
Ingvi Þór glímdi við nýrnabilun, var orðinn mjög veikur og þáði gjöf Gauta þegar önnur sund virtust lokuð.
„Ég fylgdist með utan frá, vissi af veikindum Ingva og heyrði alltaf á Jónínu hvernig gengi. Mér var kunnugt um að þau voru að leita að gjafa og ýmsir væru búnir að bjóða sig fram, bæði úr vinahópnum og fjölskyldunni en margt þurfti að ganga upp til að Ingvi og gjafinn pössuðu saman. Ég var farinn að ræða þetta við konuna mína áður en ég nefndi þetta við Jónínu og Ingva. Ég man vel eftir þeim degi; Ingvi kom upp í apótek að hitta Jónínu og var svo veiklulegur að ég ákvað að nota tækifærið og bjóða mig fram,“ segir Gauti við Akureyri.net.
Margir með eitt nýra
Varstu aldrei í vafa?
„Jú, ég var í vafa, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Maður á fjölskyldu, en ég var samt ekki smeykur við þetta. Hafði lesið mér mjög mikið til, ég er heilbrigðismenntaður og vissi því að líkur á þetta gengi vel væru mjög góðar.“
Gauti segir bæði Jónínu og Ingva hafa brugðist eins við: Þau neituðu strax.
„Ég þurfti að ganga á eftir þeim til að ítreka boðið og það var ekki fyrr en hann var orðinn mjög lasinn, og eftir að þau töluðu við sérfræðinga, að þau ákváðu að þiggja gjöfina – sem betur fer.“ Gauti segir mjög góða ráðgjöf í boði, bæði fyrir líffæraþega og gjafa. Hann segist stálsleginn og alveg jafn góður og áður. „Það er fullt af fólki sem gengur um með bara eitt nýra. Áður en ég kom til greina þurfti reyndar að ganga úr skugga um að ég væri örugglega með tvö nýru!
Gauti segist hafa verið nokkuð lengi að ná upp þreki eftir aðgerðina. „Það tók nokkra mánuði, líklega aðallega vegna þess að ég fór of geyst af stað í ræktinni. Einhvern tíma lá ég á bakinu og gerði magaæfingar, spennti magann upp í loftið og heyrði vöðva rifna! Þá vissi ég að ég þyrfti að taka því rólega lengur og gerði það. En eftir að ég náði upp þreki er ég alveg eins og áður. Það er líka fylgst vel með manni.“
Þeir félagarnir styðja sitt hvort íþróttafélagið á Akureyri. Gauti er grjótharður KA-maður en Ingvi eldheitur Þórsari og þeir gera gjarnan að gamni sínu vegna þess. „Ég man þegar við hittumst stutta stund á gjörgæslunni, daginn eftir gjörninginn; það var verið að trilla mér út þar sem hann lá og ég kallaði í Ingva og spurði hvort hann væri ekki orðinn KA-maður! Hann varð vandræðalegur á svipinn og gat ekki svarað. Ég held að meira þurfi til, ég gæti þurft að gefa honum eitthvað úr heilanum! Hann fær að minnsta kosti ekki hitt nýrað,“ segir Gauti og hlær. Hann sér gjarnan björtu hliðarnar á tilverunni. „Ingvi er góður Þórsari.“
Áhugasamur apótekari
Ingvi Þór Björnsson greindist með skerta nýrnastarfsemi árið 1996, 28 ára að aldri. „Þá má segja að þessi barátta hefjist. Vel var fylgst með mér frá þeim tíma og ég hélt lífinu bar áfram. Ég fann ekki fyrir neinu,“ segir Ingvi við Akureyri.net.
Á þessum tíma starfaði Ingvi sem rafvirki hjá KEA og og vann töluvert í Stjörnu apóteki, sem var í eigu kaupfélagsins. „Þetta byrjaði þannig að apótekarinn vildi endilega fá að mæla blóðþrýstinginn hjá mér. Og gerði það nokkrum sinnum. Sagan er best þannig að ég hún hafi viljað fá að koma við mig en niðurstaðan var skýr, eftir að hún mældi þrýstinginn nokkrum sinnum: Ingvi, þú verður að fara til læknis.“
Ingvi gegndi Jónínu apótekara, sem hann þekkti aðeins lítillega þá en þau urðu fljótlega kærustupar og hafa verið gift lengi.
Eftir að hafa hitt lækni í byrjun viku hugði Ingvi á suðurferð að hitta gamla skólabræður en á föstudegi hringir heimilislæknirinn og segir snöggur í bragði: Þú ert ekki að fara suður. Ég ætla að leggja þig inn.“
Mál æxluðust reyndar þannig að Ingvi fór suður, ekki þó til að hitta skólabræðurna heldur á sjúkrahús til rannsókna. „Ég fann í sjálfu sér ekki neitt ennþá, var ekki með neina verki – kannski var ég í afneitun. Ég átti reyndar auðvelt með að sofna hér og þar, þegar leið að nýrnabilunni því orkan var mjög skert. Ég var mikið með strákunum mínum, ferðaðist dálítið með Þórsurum þegar þeir voru að keppa og strákarnir kölluðu mig Blunda! Ef ég fór á skytterí með bræðrum mínum lagði ég mig aftur í bílnum um leið og keyrt var af stað frá Akureyri og svaf.
Synir mínir muna sennilega ekki eftir mér vakandi að horfa bíómynd, fyrr en núna. Þetta eru fyrstu einkennin og svo fær maður mikinn bjúg.“
Nýrnagjafar og nýrnaþegar. Frá vinstri: Jónína Freydís Jóhannesdóttir, Gauti Einarsson, Hafdís Bjarnadóttir og Ingvi Þór Björnsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Gat ekki sagt: ég þarf nýtt nýra
Hjónin Ingvi og Jónína unnu bæði á Grenivík um tíma, hún í lyfjageiranum en hann var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Höfðhverfinga. Ingvi segir að farið hafi að halla undan fæti hjá sér 2014 og enn frekar 2015. Þá hafi meiri bjúgur farið á myndast á fótum og hann orðið orkulítill.
„Þegar mér var svo sagt að ég þyrfti nýtt nýra var það mikið sjokk. Lengi vel gat ég ekki sagt þetta: ég þarf nýtt nýra. Við sögðum auðvitað fjölskyldunni frá þessu, systkini mín og aðrir í fjölskyldunni létu rannsaka sig og nokkrir vina minna, án þess að ég vissi af.“
Það var svo á sumardaginn fyrsta árið 2017 sem Ingvi „krassar“ eins og hann orðar það. „Fjölskyldan var að flytja í nýtt húsnæði, ég var að vinna sem rafvirki á Rafeyri eins og ég gat en var enginn bógur og svo allt í einu gerðust hlutirnir mjög hratt. Við vorum að flytja frá Grenivík og vorum að brasa þar. Ég hóstaði svo mikið að ég sagðist ekki ætla með þeim til Akureyrar, ég myndi sofa útfrá vegna þess að ég myndi örugglega halda fyrir þeim vöku.“
Nóttin var örlagarík. „Þarna byrjaði læknastússið fyrir alvöru. Ég gat lítið sofið, hóstaði mikið og í einu hóstakastinu fannst mér ég vera að líða út af. Klukkan var fimm að morgni og ég ákvað að keyra heim til Akureyrar. Ég átti orðið erfitt með að anda og hóstaði enn mikið og ákvað því að fara í nýja húsið, sem var að verða klárt, því ég vildi ekki vekja konuna og börnin, sem sváfu á gamla staðnum. Ég ákvað að fara í sturtu en gat svo skyndilega ekki meira og náði að hringja í konuna mína, sem kom í hvelli. Hún dröslaði mér út í bíl og keyrðum upp á bráðamóttöku. Þegar ég skjögraði inn og mæti manni sem ég sá að horfði mjög á mig og ég hugsaði með mér: sá hlýtur að halda að ég sé fullur!
Fljótlega eftir að ég var lagður í rúm var kominn heill læknaher í kringum mig – og gæinn sem ég mætti í forstofunni. Ég hugsaði með mér: hvað skyldi hann vera að gera hér? Þetta var þá bráðamóttökumeistari sjúkrahússins! Hann hafði verið á heimleið eftir vakt en snéri við í forstofunni; hefur sennilega ekki viljað missa af fjörinu!“
Ingvi segir súrefnismettun hafa verið komna niður úr öllu valdi. „Þeir settu á mig súrefnisgrímu og svo aðra stærri. Svo man ég að sá sem sneri við í forstofunni sagði: ég ætla að fara upp og ná í stóru grímuna. Þeir höfðu talað um að setja mig í öndunarvél og þá leist mér ekki á blikuna. Þeir ákváðu að prófa stóru grímuna fyrst, þetta virtist vera einskonar eiturefnagríma með gleri, ég fann fyrir ægilegum þrýstingi þegar þeir settu hana á mig en ég náði að anda nokkuð eðlilega þótt ég hafi enn hóstað mikið. Með þessu náðu þeir mettuninni upp svo ekki þurfti að setja mig í öndunarvél.“
Daginn eftir var flogið með Ingva til Reykjavíkur í sjúkraflugvél. „Ég segist stundum hafa boðið konunni suður í einkarellu!“
Tilfinningaþrungið
Þegar þarna var komið sögu var í raun byrjað að búa Ingva undir nýrnaskipti, segir hann. „Gamlir skólabræður og æskuvinir höfðu boðið sig fram og farið í rannsóknir til að komast að því hvort þeir væru mögulegir gjafar. Það voru ótrúleg tilfinningaþrungin stund þegar einn þeirra bankaði upp og bauð mér nýra – tilfinningin er ólýsanleg.“
Ingvi var á biðlista eftir nýra í Svíþjóð í eitt og hálft ár, og segist frekar hafa viljað fá nýra þaðan „en að einhver hér heima þyrfti að gefa mér sitt.“
Rannsóknir á vinunum leiddu í ljós að enginn þeirra hentaði sem gjafi og heldur enginn úr fjölskyldunni. Þá kom Gauti til sögunnar.
„Gauti er frábær maður. En hann er ungur og með börn svo við Jónína sögðum strax nei þegar hann bauð sig fram. En svo var ekki annað hægt en þiggja og þá fer flókið ferli af stað.“
Í tilfelli Ingva má segja að sjaldan sé ein báran stök. Læknar komust að því að ekki var allt með felldu í starfsemi hjartans og hann þurfti í hjartaþræðingu haustið 2017. „Ég hafði ekki fengið hjartaáfall eins og einhver óttaðist heldur erfiðaði hjartað mjög mikið.“
Eftir hjartaþræðinguna um haustið tók við endurhæfing og allt miðaðist við að hann kæmist í nýrnaskipti á fyrri hluta næsta árs. „Ég á afmæli 25. janúar og það var einmitt á fimmtugsafmælinu mínu, 2018, sem hringt var í mig og svo í Gauta í framhaldinu,“ segir Ingvi. Hann hafði verið reglulega í nýrnavél um tíu mánaða skeið; vél sem tekur við hlutverki nýrnanna við að hreinsa blóðið, þegar þeir Gauti fóru í aðgerð 7. mars.
Engin fallegri gjöf til
Þegar Ingvi er spurður hvernig hann hafi brugðist við þegar náinn vinur eins og Gauti býður nýra að gjöf og í ljós kemur að hann hentar sem gjafi, þagnar hann um stund.
„Ég tárast núna þegar þú spyrð,“ segir hann svo. „Þetta er rosalegur rússíbani. Maður getur eiginlega ekkert sagt; fagnar en fagnar samt ekki. Þetta er svo risastór gjöf til fjölskyldunnar, gjöf sem Gauti og Hafdís færðu okkur, að það er ekki hægt að lýsa því. Það er engin fallegri gjöf til í veröldinni. Engin stærri gjöf. En eftir að læknar höfðu fullvissað okkur Jónínu um að þetta myndi ekki breyta lífi gjafans ákváðum við að þiggja – ég treysti læknavísindunum 100%.“
Skömmu fyrir aðgerðardaginn dundi enn eitt áfallið yfir fjölskylduna. „Pabbi dó 28. febrúar. Hann var eldsprækur fram á síðasta dag en ég var búinn að kveðja hann vel, af því ég var að fara í aðgerðina, og vildi ekki breyta neinu. Við urðum að halda okkar striki.“
Strax eftir að Ingvi vaknaði eftir aðgerðina vitjar hans skurðlæknir. „Hann sagði mér að þetta liti vel út, fyrstu blóðprufur sýndu að allt væri eins og það ætti að vera. Þá hugsaði ég með mér: KA-maðurinn í mér er farinn að virka!“
KA-maðurinn og Þórsarinn gantast enn með þetta, rígurinn á milli félaganna er oft mikill – en líka oft fallegur í léttleika hversdagsins, og í dauðans alvöru lífsins, eins og í þeirra tilfelli.
Ingvi segist þokkalegur til heilsunnar í dag, ekki mikill bógur til vinnu en geti alls ekki kvartað miðað við hvernig ástandið var á sínum tíma. Hann ítrekar þakklæti í garð hjónanna Gauta og Hafdísar: „Það er engin fallegri gjöf til í veröldinni. Engin stærri gjöf.“