EM stemning í München og á Akureyri
Oft er glatt á hjalla í hljóðveri Ríkisútvarpsins á Akureyri en fjörið er líklega óvenju mikið þessa dagana, þótt þar sitji einungis einn maður lungann úr deginum. Sá er nefnilega Sigurbjörn Árni Arngrímsson og lýsir með tilþrifum keppni á Evrópumótinu í frjálsíþróttum sem fram fer suður í München.
Sigurbjörn Árni er rómaður fyrir fjörlegar lýsingar, sem hann hefur sinnt fyrir RÚV tvo áratugi. Fyrsta mótið hans var EM 2002 sem einnig fór fram á Ólympíuleikvanginum í München og þá var hann á staðnum.
„Það er talsvert öðruvísi að vera á vellinum, en ég hef lýst mörgum mótum úr stúdíó svo ég er líka vanur því,“ sagði Sigurbjörn Árni við Akureyri.net í morgun – eftir fimm tíma setu í hljóðverinu.
Sigurbjörn var á vellinum og lýsti frjálsíþróttakeppni fyrir RÚV á öllum stórmótum frá 2002 til 2009; Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumótum en síðan þá hefur hann bara farið á HM 2017 og alla Ólympíuleika – í London 2012, Rio 2016 og Tokyo á síðasta ári.
Sigurbjörn Árni og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður RÚV, á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrra.
„Auðvitað er betra að vera á staðnum, maður upplifir andrúmsloftið og sér ýmislegt fleira en er á skjánum; getur fylgst með mörgum greinum í einu og fær allar upplýsingar,“ segir hann. En alltaf hefur Sigurbjörn Árni þó jafn gaman af verkefninu, hvort sem hann er á vettvangi eða heima í hljóðveri.
„Já, það er ekki spurning, þótt þetta séu langar dagar og maður sé stundum kominn í spreng! Ég er átta tíma í útsendingu alla daga, var fimm tíma í morgun og fer aftur seinni partinn.“ Hann mætir aftur í hljóðverið klukkan 17.50 í dag þegar keppnin hefst á ný. Mótið hófst á mánudaginn og lýkur næsta sunnudag, 21. ágúst.
Sigurbjörn Árni er skólameistari Framhaldsskólans á Laugum í Reykjadal og keyrir til Akureyrar daglega til að lýsa keppninni á EM. Dagarnir eru því langir, og skólinn sem betur fer ekki settur fyrr en sunnudaginn 28. ágúst. „Starfsdagur er í næstu viku og við erum að undirbúa veturinn, þannig að þetta er ekki heppilegasti tíminn, en sleppur alveg.“
Tveir Íslendingar voru í eldlínunni í morgun og báðir komst í úrslit. „Þetta var mjög góður morgun,“ segir lýsandinn. Hilmar Örn Jónsson keppir í úrslitum í sleggjuksti á morgun, fimmtudag, klukkan 18.10 og Guðni Valur Guðnason í kringlukasti á föstudag klukkan 18.20. Þá verður Sigurbjörn Árni án efa í góðum gír við hljóðnemann, eys úr viskubrunni sínum og miðlar stemningunni í München til áhorfenda.