Elínarbaukur er eitt elsta hús bæjarins

Arnór Bliki Hallmundsson heldur áfram umfjöllun um elstu hús Akureyrar í pistlaröðinni Hús dagsins. Að þessu sinni segir hann frá Aðalstræti 44.
„Húsaröðin við sunnanvert Aðalstræti er einkar geðþekk, skipuð lágreistum timburhúsum frá miðri 19. öld undir skógi vöxnum brekkum Naustahöfða. Þessi hluti bæjarins hefur löngum kallast Fjaran, en þessi elsta byggð Akureyrar skiptist í Akureyri annars vegar, á eyrinni undir Búðargilinu og Fjöruna undir brekkunum. Innbærinn er heiti sem kom ekki til fyrr en löngu síðar, eftir að byggðin hafði breitt úr sér milli Oddeyrar og Akureyrar,“ segir Arnór Bliki.
Hann segir að í tilfellum margra þessara húsa sé erfitt að slá föstu um byggingarár, ef ekki ómögulegt. „Engin bygginganefnd var starfandi í bænum fyrr en 1857 og því ekki um að ræða nein byggingarleyfi. Þá voru dæmi um að hús væru flutt annars staðar frá. Eitt þessara húsa er Aðalstræti 44. Það er skráð með byggingarárið 1840 og telst því í 3. – 5. sæti yfir elstu hús bæjarins, ásamt Aðalstræti 52 og Lækjargötu 2a. Húsið hefur löngum kallast því áhugaverða nafni Elínarbaukur. Byggingarár er þó raunar óljóst, jafnvel líklegt að það sé a.m.k. hálfum öðrum áratug yngra en skráð byggingarár segir til um en hér látum við Aðalstræti 44, eða Elínarbauk njóta vafans.“