Fara í efni
Mannlíf

Eitt glæsilegasta sveitserhús landsins

Arnór Bliki Hallmundsson fjallar í nýjum pistli í röðinni Hús dagsins um Spítalaveg 9, sem er „reisulegt og skrautlegt hús í mjög góðri hirðu. Það stendur á einkar skemmtilegum og áberandi stað, hátt á brekkuhorni norðan og ofan Búðargils. Lóðin er mjög gróin og prýdd gróskumiklum trjám,“ eins og hann orðar það.

Það var Guðmundur Hannesson, héraðs- og spítalalæknir, sem byggði húsið, á spildu sunnan „sjúkrahússins nýja“ sem reis af grunni árið 1898. „Sjúkrahúsbyggingin er löngu horfin af þessum stað en var endurreist í Hlíðarfjalli og er nú Skíðastaðir. Læknisbústaðurinn stendur hins vegar enn ...“ segir Arnór Bliki og á þar við hús dagsins.

„Þetta svæði við Spítalaveginn og Tónatröðina er einkar geðþekkt og gróið og prýtt lágreistum húsum. Mikil prýði er af þessari spildu á brekkubrúninni, sem blasir skemmtilega við úr Innbænum, af Leiruvegi og frá vinsælum útsýnisstað á Naustahöfða, norðan Kirkjugarðs. Húsið Spítalavegur 9 er aldursfriðað og einnig hluti varðveisluverðrar heildar og fær þessa umsögn í húsakönnun, sem unnin var um svæðið árið 2009: Spítalavegur 9 er eitt glæsilegasta sveitserhús landsins og er um margt sérstakt. Húsið hefur mikið varðveislugildi af þessum sökum. Þar að auki er það einn mikilvægasti hluti þeirrar heildar sem sjúkrahúsbyggingarnar mynda og er gildi þess þeim mun meira (Hanna Rósa Sveinsdóttir og Hjörleifur Stefánsson 2016: 22). “ 

Smellið hér til að lesa pistil Arnórs Blika