Eitt elsta hús sem búið er í á Akureyri

Aðalstræti 52 á Akureyri er mjög fallegt hús. Núverandi eigendur, Hallgrímur Indriðason og Kristín Aðalsteinsdóttir, keyptu húsið árið 1987 og endurbyggðu með miklum myndarskap.
Arnór Bliki Hallmundsson fjallar um Aðalstræti 52 í nýjasta pistli í röðinni Hús dagsins.
Hann segir í upphafi pistilsins:
Fjórir áratugir skilja að elsta og næstelsta hús Akureyrar svo vitað sé með vissu. Það er líklegt að þriðja og fjórða sætið hvað elstu hús bæjarins varðar, deilist milli tveggja eða jafnvel þriggja húsa, það er Aðalstrætis 44, Aðalstrætis 52 og Frökenarhúss við Lækjargötu 2a (það hús snýr raunar að Aðalstræti). Öll þessi hús munu byggð 1840 en líklegt getur talist að Frökenarhúsið hafi risið 1839. Uppruni þessara húsa er nokkuð óljós, enda húsin byggð löngu áður en Bygginganefnd Akureyrar tók til starfa. Hvað Aðalstræti 52 varðar er talið nokkuð víst að Wilhelmína Lever hafi reist það á þessum stað árið 1852 en suðurhluti hússins talinn reistur í Skjaldarvík og fluttur hingað, mögulega 1840. Svo eru heimildir fyrir því, að þessi lóð muni hafa verið óbyggð fram yfir 1850. Hvenær það var reist í Skjaldarvík veit í raun enginn en skráð byggingarár hússins er 1840. Kannski er húsið jafnvel eldra en svo? Látum það liggja milli hluta í bili, en Aðalstræti 52 er á meðal allra elstu húsa Akureyrar og eitt það elsta, sem búið er í.