Fara í efni
Mannlíf

„Einstök upplifun sem seint verður toppuð“

María Björk og Ásthildur á sviðinu í Rod Laver Arena tennishöllinni í Melbourne þar sem þær voru kynnar á fjögurra daga heimsþingi Rótarý.

Líklega hafa fáir gengið til liðs við Rótarý hreyfinguna með eins miklum stæl og María Björk Ingvadóttir, fyrrum framkvæmdastjóri N4 fjölmiðilsins. Í kjölfar óvænts verkefnis gerðist hún nýlega Rótarý félagi og steig langt út fyrir þægindarammann ásamt dóttur sinni Ásthildi Ómarsdóttur þegar þær voru fengnar til þess að vera kynnar á fjögurra daga heimsþingi Rótarý í Ástralíu í byrjun sumars .

Rótarý hreyfingin skipar nokkuð stóran sess í fjölskyldu Maríu Bjarkar en eiginmaður hennar, Ómar Bragi Stefánsson, hefur verið meðlimur í hreyfingunni í 23 ár og er nýkjörinn umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi. Þá er Ásthildur dóttir þeirra hjóna, forseti Rótaract á Íslandi sem er rótarýklúbbur fyrir ungmenni á aldrinum 18-30 ára. María Björk gekk svo sjálf nýlega til liðs við Rótarý hreyfinguna í kjölfar óvenjulegs verkefnis. „Ég hef verið í Soroptimistaklúbbi Akureyrar í átta ár og hef lítið verið að spá í Rótarý hreyfingunni en eftir að við Ásthildur vorum beðnar um að vera kynnar á heimsþingi Rótarý í Ástralíu ákvað ég að ganga til liðs við hreyfinguna sem eru stærstu góðgerðarsamtök heims með um 1,2 milljón félaga út um allan heim,“ segir María Björk.

„Við komum því mjög vel til skila að við værum frá Íslandi og kenndum salnum t.d. hið íslenska Húh víkingaklapp,“ segir María Björk meðal annars í viðtalinu.

Kynntust alheimsforesta Rótarý í gegnum N4

Í ljós kemur að þær mæðgur voru fyrstu Norðurlandabúarnir til að sinna þessu starfi og því má segja að ferill Maríu Bjarkar hjá Rótarý hreyfingunni hafi byrjað með nokkrum stæl. Forsaga málsins hefst hins vegar síðasta haust þegar María Björk var enn framkvæmdastjóri N4 sjónvarpsstöðvarinnar og Ásthildur dagskrárgerðarkona á stöðinni. „Jennifer Jones, sem er alheimsforseti Rótarý hreyfingarinnar, kom til Íslands síðasta haust. Þá ákvað N4 að gera sjónvarpsþátt um hana þar sem Jennifer er fyrst kvenna til að gegna þessu embætti í 118 ára sögu Rótarý hreyfingarinnar. Hún hefur sjálf starfað lengi í fjölmiðlum og er eigandi að sjónvarpsstöð í Kanada,“ segir María Björk. Í tengslum við þáttagerðina kynntust þær mæðgur Jennifer nokkuð og í mars síðastliðnum fengu þær bréf frá henni. „Þá var undirbúningur undir heimsþing Rótarý hreyfingarinnar í fullum gangi. Í bréfinu spyr Jennifer hvort við viljum gera henni þann heiður að vera kynnar á þessari ráðstefnu. Við vorum þá báðar atvinnulausar eftir að N4 lokaði og höfðum svo sem ekkert annað að gera, svo við sögðu bara „því ekki það“. Við héldum að þetta væri svona 500-1000 manna ráðstefna og að það væri ekkert mál að taka þetta að sér.“

Eiginmaður Maríu Bjarkar, Ómar Bragi Stefánsson, hefur verið meðlimur í Rótarý hreyfingunni í 23 ár og er nýkjörinn umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi. Mynd: Rotary.is/Annsy

Langir dagar í Ástralíu

María Björk segist ekki hafa áttað sig almennilega á hvað þær mæðgur væru búnar að koma sér út í fyrr en þær mættu í Rod Laver Arena tennishöllina í Melbourne. „Við komum þarna inn og vorum eins og títuprjónar því þetta er svo brjálæðislega stór höll. Ég viðurkenni að það fór aðeins um okkur þegar við áttuðum okkur á því að við værum að fara að kynna á nærri 15 þúsund manna ráðstefnu,“ segir María Björk. Starf þeirra mæðgna fólst annars vegar í því að kynna fyrirlesara og skemmtikrafta á svið og almennt að halda salnum með á nótunum. Þegar þær voru ekki að sinna þessu voru þær að taka viðtöl í stúdíói við nokkra aðalfyrirlesara ráðstefnunnar, m.a. við Leymah Gbowee friðarverðlaunahafa Nóbels 2011, fólk sem starfað hefur á stríðsátaka svæðum og fólk sem unnið hefur að útrýmingu lömunarveiki í heiminum, svo fáein dæmi séu tekin. „Fyrstu dagarnir fóru í æfingar og í það að vinda ofan af sér. Ferðalagið tók 28 klst. og svo er 10 klst. tímamismunur. Við dvöldum á mjög góðu hóteli og vorum trítaðar eins og stjörnur. Við vorum sóttar á morgnana og keyrðar í höllina. Þar fórum við í snyrtingu og hárgreiðslu og svo bara inn á svið fyrir framan 15 þúsund manns. Dagarnir byrjuðu eldsnemma og vel haldið á spöðunum langt fram á kvöld en þetta var alveg einstök upplifun sem seint verður toppuð.“

Starf þeirra mæðgna á Rótarý ráðstefnunni fólst bæði í því að kynna fyrirlesara og skemmtikrafta á svið sem og taka viðtöl í stúdíó við aðalfyrirlesara ráðstefnunnar.

Kenndu gestum víkingaklappið

María Björk segir að þrátt fyrir umfangið hafi allt gengið eins og í sögu. Þær hafi náð góðu sambandi við salinn og fengið hann til þess að syngja með sér og fleira. „Við komum því mjög vel til skila að við værum frá Íslandi og kenndum salnum t.d. hið íslenska Húh víkingaklapp. Jennifer vildi að við töluðum inn í hjörtun á fólkinu og leyfðum því að finna að við værum mæðgur en mikil áhersla var á mátt kvenna á þessu alheimsþingi. Við tókum strax þá afstöðu að vera við sjálfar og leyfa okkur að vera mannlegar í stað þess að leika einhverjar upptrektar dúkkur og það reyndist vel. Ég mismælti mig til dæmis en þá gerðum við bara grín að því, Ásthildur leiðrétti mig og við sögðum að enskan væri ekki móðurmál okkar og komum að fróðleik um íslenska tungu.“ Aðspurð hvernig það hafi verið að vinna svona náið og undir pressu með dóttur sinni segir hún að þær hafi að nokkru leyti vitað út í hvað þær voru að fara enda áður unnið saman. „Það er áreynslulaust að vinna með Ásthildi, hún vaknar alltaf í góðu skapi, hefur létta lund og er mikil fagmanneskja. En mér fannst við ná mjög vel saman í þessu verkefni, studdum hvor aðra og ég er alveg viss um að við eigum eftir að vinna saman að fleiri verkefnum í framtíðinni.“

Flottar mæðgur í Ástralíu. Ásthildur er 23 ára er nemi í Kvikmyndaskóla Íslands og María Björk býður fyrirtækjum og stofnunum á landsbyggðinni sem vilja auka sýnileika sinn upp á ráðgjöf.

Frægar í Melbourne

Þá segir María Björk að það hafi verið mjög súrrealískt að upplifa hversu „frægar“ þær urðu á þessum dögum úti. Borgin hafi verið full af þátttakendum af ráðstefnunni svo hvert sem þær fóru rákust þær á einhvern sem kannaðist við þær af sviðinu og vildi taka sjálfu með þeim eða tala við þær um Ísland. „Við fórum út fyrir ótrúlega marga þægindaramma á þessum dögum. Þó ég sé vön að vera andlit í sjónvarpi þá var það allt önnur lífsreynsla að koma fram fyrir 15 þúsund manna sal. Þá var líka mjög áhugavert að upplifa fagmennskuna á bak við viðburðinn en um 100 manns voru að vinna bak við tjöldin til að allt gengi upp. Það þýddi ekkert að vera taugaóstyrkur því salurinn finnur það strax en við mæðgur stöppuðum stálinu hvor í aðra áður en við fórum á svið með því að syngja möntruna „I got the power, you got the power, we got the power“. Við sögðum salnum frá þessu og fengum hann til þess að syngja þetta með okkur og það var rosaleg upplifun að finna orkuna streyma frá þessu yndislega fólki, maður fær ekki slíka orku úr sjónvarpinu,“ segir María Björk og bætir við; „Ég hvet fólk sem er í félagsskap sem er á alþjóðavísu að fara allavega einu sinni út og hitta fólk sem býr annars staðar. Þú færð allt annað sjónarhorn á starfið og örugglega margar nýjar hugmyndir að verkefnum til að vinna að.“

Eykur sýnileika fyrirtækja á landsbyggðunum

Þó Ástralíuævintýrið sé vissulega eitthvað sem María Björk á eftir að lifa lengi á þá er hugurinn kominn allt annað. Eftir að N4 lokaði, tók hún sér smá hvíld en hóf svo nýlega að bjóða fyrirtækjum úti á landi sem auka vilja sýnileika sinn upp á ráðgjöf. „Það eru svo ótal mörg tækifæri til að kynna líf og störf okkar íbúa landsbyggðanna enn betur og benda á þau frábæru tækifæri sem hér er að finna. Ég trúi því að mín reynsla og þekking á landsbyggðunum geti nýst fleirum,“ segir María Björk. Það var svo Byggðastofnun sem fékk Maríu Björk í tímabundið átak sem miðar að því auka upplýsingamiðlun af verkefnum stofnunarinnar. „Þetta verkefni hjá Byggðastofnun verður vonandi bara eitt af mörgum af svipuðum toga,“ segir María Björk. Í ljós kemur að það er ýmislegt annað í bígerð hjá henni og dagskrárgerðin er ekki langt undan. Hún er t.d. að vinna að heimildarmynd um sögu félagasamtaka og eins hefur hún verið að taka að sér dýpri viðtöl við fólk með verðmæta þekkingu og reynslu sem ættingjar vilja t.d. að sé skrásett í tengslum við stórafmæli. „Svo trúi ég því að önnur ný og spennandi tækifæri leynist einhvers staðar. Ég er glöð með að vera komin aftur heim á Sauðárkrók, eftir 10 ára fjarveru og fjarbúð, ” segir María Björk sem, ef að líkum lætur, verður áfram viðloðandi fjölmiðla bransann í einhverri mynd.