Fara í efni
Mannlíf

Einstakt á Íslandi og jafnvel á heimsvísu

Sigríður Rósa Sigurðardóttir, safnstýra Smámunasafnsins, leysti forseta lýðveldisins út með gjöfum þegar hann kvaddi í gær; hún færði Guðna forláta þvottabretti sem Sverrir Hermannsson smíðaði úr gömlum viði og gleri, og DVD disk með heimildarmynd um Sverri eftir Gísla Sigurgeirsson dagskrárgerðarmann. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, skoðaði Smámunasafn Sverris Hermannssonar í fyrsta skipti í gær og hreifst mjög af því sem fyrir augu bar. Hann er sannarlega ekki sé eini; nýlegt dæmi er Hollywood stjarnan Jodie Foster sem rak óvænt inn nefið á dögum. Leikkonan var þá við tökur á sjónvarpsþáttunum True Detective í Eyjafirði.

Smámunasafnið er í gamla félagsheimilinu Sólgarði í Eyjafjarðarsveit. Þar kennir ótrúlega margra grasa sem Sverrir heitinn sankaði að sér, en hann starfaði sem smiður á Akureyri í áratugi. „Smámunasafnið er alveg einstakt á Íslandi og jafnvel á heimsvísu. Maður gleymir sér alveg í smámunasemi ef svo má að orði komast, getur varla slitið sig frá blýantaröðinni eða naglasafninu og þannig mætti áfram telja,“ sagði forseti Íslands við Akureyri.net eftir að hafa gengið um safnið.

Sigríður Rósa Sigurðardóttir, safnstýra Smámunasafnsins, tók á móti forsetanum og sýndi honum hvern krók og kima. „Sverrir Hermannsson vildi gernýta alla hluti og af því má margt læra. Svo var hann auðvitað haldinn söfnunaráráttu, það fer ekki á milli mála. Ég segi bara sem betur fer því að til varð safn sem á engan sinn líka. Ég get vel skilið að Jodie Foster hafi heillast af þessum stað, eins og svo mörg fleiri,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Lykilmaður og algjör nagli! Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, skoðar Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Sólgarði síðdegis í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Sverri Hermannssyni var veitt fálkaorðan á sínum tíma. Henni ber að skila við andlát orðuhafa en forsetaembættið gaf sérstakt leyfi til þess að orðan yrði til sýnis á Smámunasafninu. 

Forsetinn skrifaði að sjálfsögðu í gestabók Smámunasafnsins áður en hann hélt á braut.